GENGIÐ hefur verið frá sölu fyrstu skuldabréfa Verðbréfunar hf. til lífeyrissjóða, að upphæð 1.150 milljónir króna. Skuldabréfin hafa verið kölluð Safnbréf og reiknað er með að fyrir árslok hafi verið gengið frá sölu á Safnbréfum fyrir tvo milljarða, að því er fram kemur í fréttatilkynningu frá Landsbankanum. Fyrirtækið Verðbréfun hf. var stofnað í ágúst sl.
Lífeyrissjóðir kaupa Safnbréf fyrir 1.150 milljónir

GENGIÐ hefur verið frá sölu fyrstu skuldabréfa Verðbréfunar hf. til lífeyrissjóða, að upphæð 1.150 milljónir króna. Skuldabréfin hafa verið kölluð Safnbréf og reiknað er með að fyrir árslok hafi verið gengið frá sölu á Safnbréfum fyrir tvo milljarða, að því er fram kemur í fréttatilkynningu frá Landsbankanum.

Fyrirtækið Verðbréfun hf. var stofnað í ágúst sl. og er eina verkefni þess að kaupa Heimilislán af Landsbankanum og afla fjármagns til kaupanna að stærstum hluta með útgáfu Safnbréfa. Verðbréfun hf. er í eigu Eignarhaldsfélags Brunabótafélags Íslands, Samvinnulífeyrissjóðsins og Landsbanka Íslands hf.

Verðbréfun lánasafna (e. securitization) er mjög vaxandi á erlendum lánamörkuðum og með sölunni nú er fyrsta verðbréfunarverkefni farið af stað á Íslandi, að því er fram kemur í tilkynningunni. Undirbúningur hefur staðið frá árslokum 1998 þegar Landsbanki Íslands hóf könnun á því hvort unnt væri að bjóða langtímalán til húsnæðiskaupa á lægri kjörum en almennt tíðkaðist í bankakerfinu. Í febrúar sl. náðist samkomulag við sjö stærstu lífeyrissjóði landsins um að þeir tryggðu fjármögnun á tveimur milljörðum króna. Landsbankinn býður nú svokölluð Heimilislán til 30 ára og eru vextir þeirra 5,65%.