Kannski eiga nú við orð skáldsins Steins Steinars, segir Auðólfur Gunnarsson, fyrir munn Hallgaríms Péturssonar: "Húsameistari ríkisins, ekki meir, ekki meir".
Um flugvöll, háskólasjúkrahús og betri borg Skipulagsmál Kannski eiga nú við orð skáldsins Steins Steinars, segir Auðólfur Gunnarsson , fyrir munn Hallgaríms Péturssonar: "Húsameistari ríkisins, ekki meir, ekki meir". NÚ ER í gangi mikil umræða um framtíð Reykjavíkurflugvallar og landnotkun svæðisins og sýnist sitt hverjum. Forsvarsmenn samtaka "Betri borgar" vilja völlinn burt og nýta landið, að því er virðist aðallega fyrir íbúabyggð. Þar sem Íslendingar byggja vönduð hús úr steinsteypu, yrði ekki tjaldað til einnar nætur og ekki aftur snúið, ef af yrði. Aðrir benda á nauðsyn vallarins fyrir greiðar og hagkvæmar flugsamgöngur, bæði innanlands og að vissu marki við útlönd, auk mikilvægis vallarins og tengdrar starfsemi fyrir atvinnulíf borgarinnar. Því verður ekki á móti mælt, að þessir þættir eru mikilvægir, bæði fyrir íbúa höfuðborgarsvæðisins og landsins alls. Kvartað er yfir hávaðamengun vegna flugumferðar og þeirrar hættu, sem yfir vofir, ef flugvél hlekktist á yfir borginni.

Ég hef unnið sl. 2 áratug á Landspítalanum og mest á skurðstofum kvennadeildar á 3. hæð hússins, þaðan sem einstaklega góð yfirsýn er yfir flugvallarsvæðið og auðvelt að fylgjast með umferð um völlinn. Á þessum árum hef ég ekki orðið þess var, að kvartað hafi verið undan hávaðamengun vegna flugvéla á Landspítalanum, og tel að hin mikla bifreiðaumferð um aðliggjandi götur og það ónæði og hættur, sem af bifreiðaumferðinni stafa, hafi valdið sjúklingum og starfsfólki mun meira ónæði og áreiti en flugumferðin. Auk þessa er starfsfólk og sjúklingar orðið vant hávaðamengun vegna sprenginga, borana og annars hávaða, sem fylgt hefur tíðum niðurbrotum og breytingum eldri bygginga og nýbyggingum á lóðinni.

Á þessu tímabili munu ekki hafa orðið slys á fólki á jörðu niðri vegna flugumferðar um völlinn. Á sama tíma hafa orðið fjölmörg umferðaróhöpp og slys á fólki, sem valdið hafa örorku og jafnvel dauða, á götunum umhverfis spítalann.

Þótt ekki sé rétt að gera lítið úr hættum, sem flugumferð um völlinn getur skapað, tel ég að með viðeigandi ráðstöfunum sé unnt að halda henni í lágmarki, enda ekki fátítt að litlir flugvellir séu staðsettir inni í borgum erlendis. Flugsamgöngur eru í dag og verða örugglega í framtíðinni það ríkur þáttur í samgöngukerfinu, að hjá því verður ekki vikist að byggja upp aðstöðu fyrir þá starfsemi, sem hentar vel íbúum borga, sem þurfa að vera í góðu sambandi við umheiminn. Rætt er um að flugvöllurinn sé eins og sár í hjarta höfuðborgarinnar. Ég tel, að eins mætti benda á, að hann skapar olnbogarými og verndar útsýni og er því nokkurs konar lunga og gæti orðið að hjarta fyrir höfuðborgina með aðliggjandi umferðaræðum, sem veiti lífi í borgina.

Ég hef áður bent á í blaðagrein nauðsyn þess að byggja nýtt háskólasjúkrahús utan skarkala miðborgarinnar. Slíkt sjúkrahús þarf vissa friðsæld, en með greiðum aðkomuleiðum og miklu landrými. Unnt þarf að vera að færa í eitt hús starfsemi sem allra flestra sérgreina læknisfræðinnar með tilheyrandi legurými, aðgerða- og rannsóknarstofum, auk landrýmis fyrir byggingar fyrir tengda starfsemi, svo sem rannsóknir, kennslu auk skrifstofuhúsnæðis og annarrar aðstöðu fyrir starfsfólk og aðstandendur sjúklinga. Sá húsakostur, sem nú er á Landspítalalóðinni og það landrými, sem þar er fyrir hendi, býður ekki upp á eðlilega uppbyggingu, þegar til lengri tíma er litið.

Nauðsynlegt er að taka tillit til þessa í framtíðarskipulagi höfuðborgarsvæðisins, og hef ég bent á Vífilsstaði sem heppilegan stað fyrir Landspítala og háskólasjúkrahús framtíðarinnar. Ef starfsemi Landspítalans flyst af núverandi lóð, skapaðist þar aðstaða fyrir ýmsan rekstur, sem félli að starfsemi flugvallarins og Umferðamiðstöðvarinnar, svo sem hótel auk þess sem hér væri kjörinn staður fyrir ýmsa starfsemi tengda háskólanum, svo sem stúdentagarða. Háskólasjúkrahús þrifist hins vegar betur í meiri fjarlægð frá miðborginni, þótt landfræðileg tengsl við háskólann yrðu önnur en nú er.

Mikill kostur þess að rasa ekki um ráð fram og ýta burtu flugvellinum í stað íbúðabygginga er, að enginn sér í dag fyrir nauðsyn landrýmis á þessu svæði fyrir starfsemi, sem félli betur að þörfum háskólans og miðborgarinnar en íbúabyggð, sem nýtast mundi tiltölulega fáum. Ekki er heldur séð fyrir um nauðsynlega þróun umferðarmannvirkja með breyttri tækni í framtíðinni. Þótt hin umdeilda Fossvogsbraut út fyrir Öskjuhlíð, með tilheyrandi bifreiðaumferð og mengun, eigi vonandi ekki eftir að verða til, gæti vistvæn rafbraut, með hljóðlausum vögnum, sem hefði sömu legu, átt eftir að þjóna íbúum höfuðborgarsvæðisins. Vegna skammsýni hafa þegar verið gerð of mörg skipulagsmistök á höfuðborgarsvæðinu, svo sem þrenging byggðar umhverfis Sjúkrahús Reykjavíkur, sem útilokar það nú sem framtíðar háskólasjúkrahús og umhverfisslys, eins og bygging grárra steinkumbalda meðfram Kleppsveginum, sem byrgja útsýni þaðan yfir "sundin blá" til Viðeyjar og Esjunnar.

Eins og einstaklingur þarf að geta andað og dregið að sér hreint og óspillt andrúmsloft til að lifa góðu lífi, þarf borg, sem á að þjóna íbúum sínum vel, að hafa næg opin svæði svo íbúarnir geti notið útivistar og tengsla við náttúruna. Eins og líkaminn þarfnast starfhæfs hjarta og æðakerfis til að bera næringu, þarf höfuðborg að hafa gott og öruggt samgöngukerfi, sem fellur vel að umhverfinu, eins og æðakerfi líkamans gerir, svo hún megi þjóna eðlilega íbúum landsins alls og dafna og þróast eðlilega.

Ef til vill er nú einmitt rétti tíminn fyrir hið opinbera að hætta viðbyggingum, breytingum og öðru klúðri á Landspítala- og Borgarspítalalóðum, en leggja hins vegar í sjóð á núverandi uppgangstíma og nýta hann til byggingar myndarlegs háskólasjúkrahúss á Vífilsstöðum, þegar harðnar í ári á atvinnumarkaðnum. Kannski eiga nú við orð skáldsins Steins Steinars, fyrir munn Hallgríms Péturssonar: "Húsameistari ríkisins, ekki meir, ekki meir".

Höfundur er yfirlæknir, fyrrverandi formaður Náttúruverndarfélags Suðvesturlands og Stúdentaráðs Háskóla Íslands. Auðólfur Gunnarsson