DAVID Bowie ætlar að skáka borgarstjóra New York, Rudolph W. Guiliani, og öðrum andstæðingum "Sensation"-sýningarinnar á breskri samtímamyndlist í listasafninu í Brooklyn með því að sýna verk hennar á heimasíðu sinni.
"Sensation" opnar á heimasíðu Bowies

DAVID Bowie ætlar að skáka borgarstjóra New York, Rudolph W. Guiliani, og öðrum andstæðingum "Sensation"-sýningarinnar á breskri samtímamyndlist í listasafninu í Brooklyn með því að sýna verk hennar á heimasíðu sinni. Eins og sagt var frá í blaðinu á fimmtudaginn hefur Guiliani lýst andúð sinni á sýningunni þar sem meðal annars er að finna málverk af Maríu mey með annað brjóstið mótað úr fílaskít. Vill borgarstjórinn loka sýningunni en stjórn Brooklynsafnsins hefur ákveðið að höfða dómsmál á hendur borgarstjóranum.

141 verk eru á sýningunni og verða þau öll sýnd á heimasíðu Bowie en þar opnar hún í dag. Rödd Bowies mun fylgja gestum um sýninguna á síðunni en hann lýsti ánægju sinni með hana síðastliðinn miðvikudag: "Sensation sýnir sum af bestu, verstu og örugglega öfgakenndustu verkum sem bresk samtímamyndlist hefur getið af sér á síðastliðnum tíu árum," sagði Bowie sem er einn af kostunaraðilum sýningarinnar í Brooklynsafninu.

Það er Netfyrirtækið UltraStar Internet Services sem vann að uppsetningu sýningarinnar á heimasíðu Bowies en poppgoðið átti þátt í að stofna það. UltraStar fékk réttinn til að setja sýninguna upp á Netinu fyrir nokkrum mánuðum síðan.

Slóðin á heimasíðu Bowies er: www.davidbowie.com