Í SUMAR sendu bæjaryfirvöld í Hafnarfirði samtökum kennara og menntamálaráðuneytinu gögn vegna hugsanlegs útboðs á kennslu í hafnfirskum grunnskóla. Á sama tíma var bygging hans boðin út til einkaaðila sem eiga þá að byggja og reka húsið næstu áratugi.
SRABB

Hver á?

Í SUMAR sendu bæjaryfirvöld í Hafnarfirði samtökum kennara og menntamálaráðuneytinu gögn vegna hugsanlegs útboðs á kennslu í hafnfirskum grunnskóla. Á sama tíma var bygging hans boðin út til einkaaðila sem eiga þá að byggja og reka húsið næstu áratugi. Það síðara er gert við Iðnskóla Hafnarfjarðar og verður fróðlegt að fylgjast með rekstri hans þar sem svo má heyra á bæjaryfirvöldum í Firðinum og jafnvel menntamálaráðherra að þetta sé rekstrarform framtíðarinnar. Það er því fróðlegt að skoða sviðið með þessi viðhorf í huga og jafnvel líta til umræðunnar í þeim löndum þar sem markaðsvæðing skóla hefur gengið hvað lengst.

Markaðsviðhorf og markaðsvæðing tröllríða reyndar umræðunni hér á landi, eins og víðar. Öllu skal stjórnað af markaðnum. Samt er einkavæðingin oft byggð á ríkisrekstri. Í skólageiranum munu flestir einkaskólarnir í raun reknir af ríkisfé auk þess sem nemendur (foreldrar) greiða aukalega. Þessir skólar eru svo oftast að hluta undanþegnir þeim reglum sem aðrir skólar lúta, sbr. gjöld, inntökureglur og fleira. Með auknu fjármagni, völdum hópi nemenda og fleiru geta þeir svo látið líta út fyrir að þetta rekstrarform sé betra. Jafnframt er ljóst að yrðu þeirra reglur látnar gilda um alla skóla þá myndu sumir foreldrar hreint ekki senda börn sín í skóla vegna meints peningaleysis eða ónógrar þjónustu.

Annað einkenni markaðsvæðingar er hugtökin en með þeim greinist skólinn sem seljandi gæða sem neytandinn kaupir. Þessi gæði þarf svo að mæla því tryggja þarf að þau séu fullnægjandi og birta niðurstöðurnar til þess að fólk viti að hverju það gengur. Gögnin eru svo einfölduð til að þau taki ekki mikið pláss, frávik eru felld út, öllum til einföldunar þó svo að stundum þyki sannleikurinn fulleinfaldur. Mælikvarðarnir eru settir upp af sérfræðingum sem oft hafa lítið eða ekki starfað innan skóla. Úttektin á helst ekki að kosta krónu og má ekki taka tíma frá starfsfólki skólanna. Það fær hvorki tíma til að koma að málinu né setja sig af raun inn í það. Á almennum vinnumarkaði þýðir gæðastjórn jafnan aukna þátttöku í starfi og ákvarðanatöku en í skólum hefur nýleg lagasetning fremur leitt til minnkandi þátttöku kennara í ákvarðanatöku og stjórnun. Þar sem gæðastjórn verður jafnan til að einfalda vinnuna í fyrirtækjum og hagræða þá sýnist hún færa skólum fleiri verkefni og auknar skyldur.

Um leið og við beitum utanaðkomandi mælikvörðum til að tryggja samræmið þá kemur upp sú hugsun að tryggja að námsefnið sé utanaðkomandi framleiðsla í sama staðlaforminu svo mælingin sé nógu einföld. Þar með væru skólinn og nemandinn orðnir að neytendum þar sem sjálfstæð hugsun, sköpun og gagnrýni eru sett til hliðar fyrir neysluhugsun markaðssamfélagsins. Dæmi um þetta má sjá t.d. í Bandaríkjunum þar sem námsefnispakkar eru útbúnir af stórfyrirtækjum um leið og þau kynna málstað sinn. Þannig hefur verið kennt umhverfisnámsefni frá stóru hamborgarafyrirtæki. Það fjallar m.a. um eyðileggingu skóga en þar er hvergi nefndur hlutur þessa fyrirtækis í eyðingu regnskóga.

Mötuneyti skólanna þar í landi eru stundum leigð til handhafa frægra vörumerkja sem selja þá framleiðslu sína í þröngri merkingu og útiloka önnur vörumerki ef vill.

Raunar hafa einkavæðingarmálin gengið svo langt vestanhafs að finna má stórfyrirtæki sem reka jafnvel fjölda skóla hvert í gróðaskyni. Þessir skólar eru oft á sérsamnningum, tengjast tilraunum með svokallað ávísanakerfi eða þá þeir tengjast tilteknum starfsaðferðum og jafnvel trúarbrögðum. Það er slíkt form sem verið er að skoða í Hafnarfirði. Þetta eru umdeildir skólar. Sumir telja að þeir séu boðberar frjáls skólastarfs framtíðarinnar þar sem hagnaðarsjónarmið fái að ráða. Þeir telja jafnframt að árangur verði þá mældur í öðru en námsárangri. Þessir skólar eru gagnrýndir fyrir of mikla hagræðingu í rekstri sínum, t.d. hvað varðar ráðningu starfsfólks. Þar er átt við að skólarnir ráði ódýrt starfsfólk, ­ reynslulitla kennara eða réttindalausa, séu með ófaglærða ráðgjafa eða enga o.s.frv. Þá velji þeir inn nemendur t.d. þannig að fatlaðir nemendur eða nemendur með sérþarfir, slakir nemendur eða nemendur af óæskilegum kynþáttum (t.d. svartir/indíánar) fái ekki inngöngu. Ef nemendur með sérþarfir eru teknir inn þá eru dæmi um að þeir séu látnir afsala sér þeirri þjónustu sem þeir annars ættu rétt á. Svona aðstæður (sem reyndar hafa löngum verið við lýði í Bretlandi þar sem einn megintilgangur einkaskóla er að einangra fínni manna börn frá almúganum) eru vitaskuld ekki til þess fallnar að efla lýðræði, jafnrétti og bræðralag. Reyndar deila menn um það hver tilgangur skólastarfs sé. Eru skólar til þess að þjálfa upp vinnuafl eða gagnrýna lýðræðissinnaða borgara? Hvaða hlutverki gegna kennarar í þessu? Eru þeir til að framfylgja stefnu sitjandi stjórnvalda eða gagnrýnir hugsuðir sem eru virkir í ákvarðanatöku, stefnumótun og námsefnisgerð? Markaðshugsunin sem nú ríkir er raunar afskaplega vinsæl og öllum þykir sjálfsagt að hafa allt sem frjálsast. Það er spurning hvar draga skuli mörkin milli frelsis og samábyrgðar. Það kann að vera spurning að hversu miklu leyti eigi að takmarka, binda og festa niður starfskerfi eða reglur. Þá er það samábyrgðin sem felur það í sér að hver og einn leggi sitt af mörkum til þess að aðrir fái notið þjónustu sem allir eiga rétt á. Það væri of langt gengið ef sortéra ætti út úr bílum sem lent hefðu í árekstri þá sem rétt ættu á heilbrigðisþjónustu vegna þess að þeir hefðu keypt til þess gerðar tryggingar og svo hina sem ekki eiga þess rétt vegna þess að þeir hafi ekki haft ráð á að kaupa sér tryggingar. Það að einn búi að lúxussvítu á spítala meðan annar fái bara plástur er ekki í anda þess mannréttindakerfis sem margir telja að samfélag eigi að búa við. Ef réttur einstaklingsins er mikilvægur þá er það skylda okkar sem einstaklinga í samfélagi að tryggja að tekjuminni einstaklingur fái notið sömu þjónustu og hinir betur megandi. Þegar til alls er litið þá búum við í samfélagi, með sameiginlegar reglur, skyldur og réttindi, en ekki í afmörkuðum einingum sem fyrst og fremst níðast hver á annarri í tekjuskyni.

MAGNÚS ÞORKELSSON