EITT AF því sem vakti hvað mesta hrifningu í kynningu á nýju Apple- fartölvunni, iBook, var að hægt verður að kaupa við hana þráðlausa tengingu sem Apple kallar AirPort. Ekki eru þó allir eins hrifnir, því franski herinn hefur beitt sér gegn því að leyft verði að selja tengibúnaðinn þar í landi.

Franski herinn blæs

til sóknar gegn Apple EITT AF því sem vakti hvað mesta hrifningu í kynningu á nýju Apple- fartölvunni, iBook, var að hægt verður að kaupa við hana þráðlausa tengingu sem Apple kallar AirPort. Ekki eru þó allir eins hrifnir, því franski herinn hefur beitt sér gegn því að leyft verði að selja tengibúnaðinn þar í landi. AirPort-tengið notar útvarpsbylgjur á tíðnisviðinu 2,4 GHz og dregur um 50 metra að sögn. Svo vill til að 2,4 GHz tíðnisviðið er frátekið fyrir franska herinn þar í landi og þarf að sækja um sérstakt leyfi vilji fyrirtæki og einstaklingar nota það. Yfirleitt er hægur leikur að fá leyfið ef búnaðurinn er utan starfssvæðis hersins, en þegar fartölva á í hlut er ómögulegt að vita hvað hún á eftir að flækjast. Því gæti svo farið að einhver sem væri á ferð með AirPort-tengda iBook gæti truflað hernaðarlega mikilvæg samskipti, gert Frakkland varnarlaust, og fengið fyrir tveggja milljóna króna sekt og hálfs árs fangelsi. AirPort-tengingin er ekki komin á markað enn og ekki heldur iBook- tölvurnar. Sérfræðingar franska hersins bíða því átekta eftir að komast yfir eintak til að geta tekið það í sundur og kannað sendisviðið, en þeir segja að við bestu skilyrði geti sendirinn hæglega náð yfir marga kílómetra. iBook-tölvan nýja er mikið augnayndi að margra mati.