NÝR sýningarsalur verður opnaður á Skólavörðustíg 14 í dag, laugardag, kl. 14 með sýningu Hjartar Marteinssonar, Myrkurbil. Salurinn er rekinn í tengslum við Man kvenfataverslunina og verður leigður út þrjár sýningarhelgar í senn. Hann er 62 fm rými í kjallara með 2,94 m lofthæð. Aðkoma í salinn er í gegnum verslunina Man, nema um helgar, þá er farið um inngang frá Skólavörðustíg.

Listasalurinn Man opnaður

á Skólavörðustíg

NÝR sýningarsalur verður opnaður á Skólavörðustíg 14 í dag, laugardag, kl. 14 með sýningu Hjartar Marteinssonar, Myrkurbil.

Salurinn er rekinn í tengslum við Man kvenfataverslunina og verður leigður út þrjár sýningarhelgar í senn. Hann er 62 fm rými í kjallara með 2,94 m lofthæð. Aðkoma í salinn er í gegnum verslunina Man, nema um helgar, þá er farið um inngang frá Skólavörðustíg.

Á sýningu Hjartar, sem er hans þriðja einkasýning, eru lágmyndir og þrívíð verk. Í fréttatilkynningu segir að með verkum sínum kallist Hjörtur á við fornar og nýjar hugmyndir heimsfræðinga um eðli og gerð alheimsins. Aflvaki flestra verkanna tengist undrun og gleði þess sem rýnir út í víðáttur alheimsins með það að leiðarljósi að rekja sig eftir þeim þráðum sem þar leynast um gerð þessa heims og uppgötvar um leið að hugtök eins og þyngdarafl, svarthol eða miklihvellur segja okkur í raun næsta lítið um það ómælisdjúp tilverunnar sem er utan við og handan hinnar skynjuðu eða mælanlegu reynslu.

Sýningin stendur til 17. október og er opin á verslunartíma frá kl. 10­18 virka daga en um helgar frá kl. 14­18.

Þorbjörg Daníelsdóttir, eigandi verslunarinnar Man, ásamt Hirti Marteinssyni í nýja sýningarsalnum.