SLYSAVARNAFÉLAG Íslands og Landsbjörg, landssamband björgunarsveita, verða formlega sameinuð í dag. Stofnþing nýja félagsins sem ber nafnið Slysavarnafélagið Landsbjörg. Þingið hefst klukkan 9 á Seltjarnarnesi og þar verður nýja félaginu kosin stjórn og lög þess staðfest.
Slysavarnafélag Íslands og Landsbjörg sameinast formlega í dag

Vilja bæta slysavarna- og björgunarstarfið

SLYSAVARNAFÉLAG Íslands og Landsbjörg, landssamband björgunarsveita, verða formlega sameinuð í dag. Stofnþing nýja félagsins sem ber nafnið Slysavarnafélagið Landsbjörg. Þingið hefst klukkan 9 á Seltjarnarnesi og þar verður nýja félaginu kosin stjórn og lög þess staðfest.

Hátíðardagskrá hefst svo klukkan 14 í Laugardalshöll og kemur þar saman fólk úr björgunarsveitum, auk innlendra og erlendra heiðursgesta. Meðal heiðursgesta verða forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, biskup Íslands, herra Karl Sigurbjörnsson, og utanríkisráðherra, Halldór Ásgrímsson.

Til hagsbóta fyrir alla landsmenn

Félögin sem nú sameina krafta sína eiga sér langa og merkilega sögu. Í Landsbjörg, landssambandi björgunarsveita, eru um 30 björgunarsveitir en Landsbjörg varð til árið 1991 þegar Landssamband hjálparsveita skáta, stofnað 1971, og Landssamband flugbjörgunarsveita, stofnað 1974, sameinuðust. Elsta aðildarfélag Landsbjargar er björgunarfélag Vestmannaeyja sem var stofnað árið 1918 og elsta flugbjörgunarveitin innan þess er Flugbjörgunarsveit Reykjavíkur, stofnuð 1950. Landsbjörg hefur starfað að eflingu björgunarsveita um land allt, unnið að því að auka öryggi ferðamanna á hálendi Íslands og beitt sér fyrir styrkingu almannavarnakerfisins í landinu.

Slysavarnafélag Íslands var stofnað árið 1928 og í upphafi var sjóbjörgun brýnasta verkefni þess. Björgunarsveitir félagsins eru nú um 90 talsins og eru slysavarnadeildir þess einnig 90. Innan félagsins starfa einnig 44 unglingadeildir. Slysavarnafélagið vinnur að því að koma í veg fyrir slys og bjarga þeim sem lenda í háska. Félagið hefur unnið að því að koma á öflugri neyðarsímaþjónustu og einnig hefur það staðið fyrir kennslu í hjálp í viðlögum, slysavörnum í umferðinni og á vinnustöðum.

Í tilkynningu frá Slysavarnafélaginu Landsbjörg segir að miklir kostir og hagræði fylgi því að allar slysavarna- og björgunarsveitir landsins sameinist í einu landsfélagi. Meginmarkmið sameiningarinnar sé að bæta slysavarna- og björgunarstarf í landinu, landsmönnum öllum til hagsbóta.

Á undanförnum árum hafa félögin starfað saman að björgunaraðgerðum og fræðslustarfi og við sameininguna er talið að stjórnun og skipulag þeirra mála eigi eftir að eflast. Einnig er talið að sameiningin muni stuðla að aukinni samheldni björgunarsveita og að samskipti við opinbera aðila og önnur hagsmunasamtök verði einfaldari. Þar að auki er talað um að stjórnun félagsstarfsins verði skilvirkari og fjármunir nýtist betur.

Félagar í nýju samtökunum eru um 20.0000

Kristbjörn Óli Guðmundsson, framkvæmdastjóri Slysavarnafélagsins Landsbjargar, sagði í samtali við Morgunblaðið að það hefði ekki verið spurning um hvort þessi félög sameinuðust heldur hvenær. Hann segist vera virkilega ánægður með þessar breytingar og að aðrir forsvarsmenn félagsins séu það einnig.

Aðalskrifstofur nýja félagsins verða í gamla Landsbjargarhúsinu við Stangarhyl, en leitar- og björgunarstjórnstöð verður í Slysavarnafélagshúsinu við Grandagarð. Kristbjörn segir að litlar breytingar hafi verið gerðar á starfsmannahaldi við sameininguna. "Starfsmönnum beggja félaga verður boðið að vinna áfram hjá nýju samtökunum og eru þeir nú að stilla saman strengi og aðlagast nýjum vinnuaðstæðum."

Nýju samtökin eru mjög fjölmenn. "Með félögum í öllum björgunarsveitunum, slysavarnadeildum og unglingadeildum eru örugglega nálægt 20.000 manns í samtökunum," segir Kristbjörn.



Morgunblaðið/Jón Svavarsson

Gunnar Tómasson, forseti Slysavarnarfélagsins, setti síðasta þing félagsins í slysavarnarskóla sjómanna í gær.