ÞRÁTT fyrir einbeittan vilja Microsoft til að gera veg Windows CE sem mestan gengur hvorki né rekur að selja tölvur sem keyra það stýrikerfi. Ýmsir hafa orðið til að setja á markað Windows CE-lófatölvur og farið flatt á því, en heldur virðist ganga betur með stærri tölvur, eins konar smáferðatölvur, sem eru með sæmilegum skjá og lyklaborð í fullri stærð.
Fyrirtaks ferðatölva Enn eru framleiðendur að kynna

fartölvur sem keyra Windows CE. Árni Matthíasson skrapp til útlanda með

IBM WorkPad z50 í farteskinu. ÞRÁTT fyrir einbeittan vilja Microsoft til að gera veg Windows CE sem mestan gengur hvorki né rekur að selja tölvur sem keyra það stýrikerfi. Ýmsir hafa orðið til að setja á markað Windows CE-lófatölvur og farið flatt á því, en heldur virðist ganga betur með stærri tölvur, eins konar smáferðatölvur, sem eru með sæmilegum skjá og lyklaborð í fullri stærð. Jornada-tölva HP hefur hlotið góðar viðtökur og fyrir stuttu setti IBM á markað Workpad z50, sem er fyrirtaks ferðatölva. Ekki er langt síðan hér voru á ferð sérfræðingar frá IBM og kynntu nýjustu gerðir fartölva frá fyrirtækinu og þar á meðal z50. Sá sem sá um fartölvukynninguna var ekki á því að nokkur myndi vilja kaupa sér z50 þegar hann gæti komist yfir ThinkPad 600 eða 570, sem eru með glæsilegustu fartölvum á markaðnum. Víst væri gaman að eiga slík apparöt, en þegar litið er til þess að rafhlöður í þeim endast yfirleitt ekki nema þrjá til fjóra tíma verður z50-gerðin fýsilegri kostur, ekki síst fyrir þá sem eru sífellt á ferð og flugi, enda dugir rafhlaðan í henni upp undir tíu tíma. Ekki má svo gleyma því að fyrir það sem ein 570-gerð kostar má fá sér tvær til þrjár z50-vélar. Strokleður í blýanti IBM z50 WorkPad-tölvan er 25 sentimetrar á þverveginn og 20 á langveginn og hálfur þriðji sentimetri að hæð. Lyklaborðið er nánast í fullri stærð með bendilshnappa neðan við en bendillinn sjálfur er lítill hnappur, álíkur strokleðri í blýanti, sem er alsiða á fartölvum IBM. Smátíma tekur að venjast bendlinum, en fljótlega verður hann ekki síðri en hver önnur mús. Þó verður að segjast eins og er að snertiflötur á við þann sem er á Jornada-tölvunni er um margt skemmtilegri. Hönnuðir IBM hafa jafnan lagt mikið í lyklaborð fartölva fyrirtækisins og svo er um z50-tölvuna, lyklaborðið, sem er í nánast fullri stærð, er hreint afbragð, traustbyggt, góð svörun í lyklunum og þægilegt að vinna á það. Með tölvunni er hefðbundinn Office-hugbúnaður sem fylgir yfirleitt Windows CE, ritvinnsla, töflureiknir, glæruforrit, gagnagrunnur, póstforrit og upptökuforrit, en í tölvunni er innbyggður hljóðnemi og tengi fyrir eyrnatól, sem þýðir að hægt sé að nota upptökuna, ólíkt Jornada-tölvunni. Einnig fylgir með borgakortaforrit og ýmislegur tengibúnaður. Gerðin sem fékkst til skoðunar er aðeins ætluð fyrir Bandaríkjamarkað og innbyggt í hana 33.6 b. á s. mótald. Það reyndist vel við að sækja og senda póst og víst var hægt að vafra um á Netinu þótt sumnar síður hafi verið heldur lengi á leiðinni eins og gengur. Tilbúin um leið og kveikt er á henni Í vél eins og z50 er hægt að vinna alla venjulega vinnu, fara yfir töflureikni, lagfæra glærur og lesa og svara pósti, aukinheldur sem blaðamaður eða rithöfundur getur stundað sína vinnu. Í sjöundu utanlandsferð ársins kom sér vel að hafa z50-vél við höndina, enda þegar búið að spilla rúmri vinnuviku í að sitja í flugvélum eða bíða í flugstöðvum. Víst er hægt að bera með sér fartölvu sem keyrir Windows 9x eða NT, en þær eru þyngri, lengur að komast af stað, hitna meira og þegar við bætist að rafhlaðan dugir ekki nema í tvo til þrjá tíma gefur augaleið að notagildið er takmarkað. Meðal kosta þess að nota Windows CE er að tölvan er tilbúin um leið og kveikt er á henni, hægt er að slökkva á henni í miðri setningu og byrja á sama stað undir eins og hún er ræst og svo má telja. Líkastil á z50-vélin eftir að fara halloka fyrir tækjadellunni, en þeir sem vilja nýta tíma sinn sem best ættu að hafa drjúg not af henni og ekki skemmir að hún er talsvert ódýrari en hefðbundnar ferðatölvur, kostar í kringum 65.000 krónur vestan hafs. 131 MHz NEC VR 4121 Örgjörvinn í z50 er 131 MHz NEC VR 4121, en minni í henni er 20 MB ROM-minni, 32 MB af RAM og fjögurra MB skjáminni sem gerir kleift að sýna á skjánum 64.000 liti. Skjárinn er 8,22 VGA dual-scan. Á tölvunni er tengi fyrir CompactFlash-kort, þótt ekki hafi hún þekkt þannig kort sem Jornadatölva og Psion 5 þekktu undir eins. Auk þessa er PC-kortatengi sem tekjur hefðbundin kort og einnig þriðju gerð slíkra korta sem eru tvöfalt þykkari. Þannig má setja í hana nýja IBM 340 MB ördiskinn. Einnig er skjátengi, innrautt tengi og tengi fyrir símasnúru. Eins og getið er er í tölvunni innbyggður hljóðnemi, en einnig er tengi fyrir hljóðnema og annað fyrir heyrnartól. Hægt er að taka upp á tölvuna þótt hún sé lokuð og slökkt á henni, með sérstökum hnappi í lokinu. Höfuðsmiðir IBM hafa svo lagt í mikla vinnu til að tryggja að auðvelt sé að tengja tölvuna fyrirtækisneti, því með fylgir fjartengihugbúnaður frá IBM sem gerir kleift að lesa gögn úr dagskinnu, MS Mail/Exchange, LotusNotes og ýmsum gagnagrunnum. Vélin er einkar traustbyggð og gefur fyrirheit um góða endingu. Morgunblaðið/