KRISTINN Þór Geirsson, framkvæmdastjóri rekstrarsviðs innlendrar starfsemi Samskipa, segir aðspurður hvort félagið kanni sakaferil manna við nýráðningar með tilliti til þess hvort þeir hafi verið dæmdir fyrir smygl, að hjá félaginu sé m.a.
Samskip hyggur á hert eftirlit við nýráðningar í kjölfar stóra fíkniefnamálsins Leita upplýsinga hjá lögreglu og biðja um sakavottorð

KRISTINN Þór Geirsson, framkvæmdastjóri rekstrarsviðs innlendrar starfsemi Samskipa, segir aðspurður hvort félagið kanni sakaferil manna við nýráðningar með tilliti til þess hvort þeir hafi verið dæmdir fyrir smygl, að hjá félaginu sé m.a. farið eftir þeirri reglu, að þegar ráðið sé í "viðkvæm" störf, sé sakaferill manna kannaður og haft samband við lögreglu til að fyrirbyggja að ráðnir séu þekktir brotamenn til starfa hjá félaginu.

Fram kom í viðtali Morgunblaðsins við Jón H. Snorrason, yfirmann efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra, sem rannsakar fjármálahlið stóra fíkniefnamálsins að innan farskipafélaganna hafi í áranna rás safnast upp þekking meðal skipverja flutningaskipa á áfengissmygli, sem fíkniefnainnflytjendur telji nú dýrmæta og séu farnir að falast eftir í æ ríkari mæli. Sé það að mestu liðin tíð að fíkniefnum sé smyglað flugleiðis til landsins og stóra fíkniefnmálið endurspegli ekki síst miklar breytingar sem eru orðnar á innflutningsleiðum fíkniefna til landsins.

Viðkvæm störf veita starfsmönnum svigrúm til smygls

Með "viðkvæmum" störfum innan Samskipafélagsins á Kristinn Þór Geirsson við þau störf sem fara fram um borð og við farskip félagsins, þ.e. störf sem talin eru veita starfsmönnum, einkum skipverjum, svigrúm til að smygla varningi milli landa. Til þessa hafi ferill skipverja þannig einkum verið undir eftirliti, en í kjölfar uppljóstrana tollgæslu og lögreglu um hið stórfellda fíkniefnasmygl, sem tveir starfsmenn Samskipa eru grunaðir um aðild að, verður gengið enn harðar fram í að kanna feril manna við nýráðningar. Þá verði eitt látið yfir alla ganga, hvort sem umsækjendur sækja um skrifstofustörf eða vilja láta munstra sig á skip hjá félaginu.

Óvinsælt að biðja um sakavottorð

"Við höfum verið feimin við að biðja alla um sakavottorð, því það er mjög óvinsælt," segir Kristinn Þór. "Við horfum hins vegar með meiri alvöru á þessi mál eftir að stóra fíkniefnamálið kom upp og erum að fara í gegnum ráðningarferlið hjá okkur með það fyrir augum að fyrirbyggja smygl með skipum félagsins."

Kristinn Þór segir að þótt krafa um sakavottorð við nýráðningar geti reynst gagnleg fyrirbyggjandi aðgerð gegn smygli, séu farskipafélög engu að síður berskjölduð fyrir áföllum sem ríða yfir þegar smyglmál tengjast fyrirtækjunum, því skipverjar með hreinan skjöld geti leiðst út í smygl ef þeirra er freistað með háum fjárhæðum. Tveir starfsmenn Samskipa, sem nú sitja í gæsluvarðhaldi vegna stóra fíkniefnamálsins, hafi til að mynda verið með hreinan skjöld er þeir voru ráðnir til starfa og því hefðu varnarráðstafanir félagsins lítið að segja við ráðningu þeirra. Þess beri einnig að geta að Samskip byggi starfsemina upp á trausti til starfsfólks og bregðist starfsfólkið því trausti standi félagið varnarlítið frammi fyrir slíkum málum.

"Það væri útilokað að reka fyrirtækið án þess að haga starfseminni þannig að starfsmenn ávinni sér traust með tímanum," segir Kristinn Þór og bætir því við að í þeim tilvikum þar sem starfsfólk hafi brugðist því trausti sem til þess hafi verið borið með því að misnota sér aðstöðu sína til að smygla varningi milli landa hafi því verið sagt upp.

Þegar Morgunblaðið leitaði eftir upplýsingum um starfsmannamál hjá Eimskip fengust þau svör hjá blaðafulltrúa að félagið ræddi slík mál ekki við fjölmiðla.