GENGI krónunnar hefur styrkst nokkuð í vikunni og á fimmtudag rauf vísitalan viðnám sem verið hefur við 112. Lækkandi gildi vísitölunnar þýðir að gengi krónunnar styrkist. Meginskýringin á styrkingu krónunnar er nýleg vaxtahækkun Seðlabankans en sú hækkun jók mjög við vaxtamun milli Íslands og annarra landa. Í markaðsyfirliti Landsbanka Íslands hf.
Gengi krónunnar styrkist í kjölfar vaxtahækkana Fjárfestingar fjármagnaðar í erlendri mynt

GENGI krónunnar hefur styrkst nokkuð í vikunni og á fimmtudag rauf vísitalan viðnám sem verið hefur við 112. Lækkandi gildi vísitölunnar þýðir að gengi krónunnar styrkist. Meginskýringin á styrkingu krónunnar er nýleg vaxtahækkun Seðlabankans en sú hækkun jók mjög við vaxtamun milli Íslands og annarra landa.

Í markaðsyfirliti Landsbanka Íslands hf. í gær kemur fram að fjárfestar hafi nýtt sér þennan vaxtamun sem nemur nú ríflega 5%. Einnig haldi fyrirtæki áfram að fjármagna nýjar fjárfestingar í erlendri mynt. "Mikill vaxtamunur hefur leitt til þess sem kalla mætti einhliða fjárstreymi til landsins. Þetta innstreymi á erlendu lánsfé hefur valdið styrkingu krónunnar."

Aukinn áhugi erlendra aðila

Skipasamningar þar sem fjárfestar hafa fengið greidda innlenda vexti og greitt erlenda hafa verið mjög ábatasamir það sem af er þessu ári og engin furða að þetta augljósa tækifæri hafi verið vinsælt meðal fjárfesta. Einnig er greinilegt að áhugi erlendra aðila hefur aukist á því að nýta sér hátt vaxtastig hér á landi," að því er fram kemur í markaðsyfirliti Landsbankans.

Fyrir hrunið í Rússlandi í ágúst á síðasta ári hafði þessi áhugi aukist talsvert en í kjölfar þeirrar miklu óvissu sem skapaðist á alþjóðamörkuðum var þessum aðilum gert að draga sig út af mörkuðum sem nefndir hafa verið nýmarkaðir, en Ísland var flokkað með þessum ríkjum.

"Efnahagsleg óvissa í Rússlandi og í Asíu hefur farið minnkandi og ekki talin jafnmikil hætta á frekara efnahagshruni í þessum ríkjum. Því má búast við að hávaxtamyntir verði eftirsóttari en áður," að því er segir í markaðsyfirliti Landsbankans.