INGUNN ÓLAFSDÓTTIR

Ingunn Ólafsdóttir fæddist á Bakkagerði í Borgarfirði eystra 15. júlí 1918. Hún lést á sjúkrahúsinu á Egilsstöðum 25. september síðastliðinn. Foreldrar hennar voru Ólafur Gíslason, skósmiður og Anna Jónsdóttir, saumakona. Systkini Ingunnar voru: Björgvin, dó barn; Gyða, dó barn; Björg, f. 1905, d. 1989; Aðalsteinn, f. 1906, d. 1970.

Ingunn var ógift og barnlaus. Hún missti föður sinn ung og ólst upp hjá móður sinni og systkinum á Borgarfirði. Árið 1940 fluttist hún ásamt móður sinni til Reykjavíkur og áttu þær þar heimili ásamt Björgu systur hennar. Ingunn vann ýmist störf í Reykjavík, lengst á barnaheimilum, m.a. Drafnarborg, Tjarnarborg, Laufásborg og Valhöll, eða yfir 30 ár. Ingunn var í stjórn Borgfirðingafélagsins í Reykjavík yfir 20 ár og starfaði mikið í Félagi ausfirskra kvenna. Síðustu árin dvaldi hún á Sjúkrahúsinu á Egilsstöðum vegna veikinda sinna.

Útför Ingunnar fer fram frá Bakkagerðiskirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 14. Minningarathöfn verður í Fossvogskirkju mánudaginn 4. október og hefst klukkan 15.