Guðríður Erna Guðmundsdóttir Við fyrrverandi starfsfélagar Gurrýar hjá Selfossveitum vorum harmi slegnir er við fréttum af alvarlegum veikindum hennar í síðustu viku. Héldum í þá von að úr gæti ræst eða að veikindin væru ekki eins alvarleg og virtist. Hvorugt gekk eftir. Guðríður Erna kvaddi þetta ríki okkar dauðlegra með snörpum aðdraganda, í blóma lífs síns, allt of, allt of snemma. Hún er okkur harmdauði. Sárari missir er hún þó þeim er unnu henni heitast. Það er von okkar að allir góðir kraftar leggist á eitt og styrki þau og leiði úr sorginni til lífs og ljóss á nýjan leik. Góðar minningar úr lífi hennar og starfi ásamt öllum glaðværu stundunum munu þar létta undir.

Gurrý hóf störf hjá Selfossveitum fyrir um sextán árum aðeins tvítug að aldri. Hún var þá ráðin í starf innheimtufulltrúa á skrifstofunni. Hún hafði síðar í störfum sínum umsjón með viðskiptakerfi fyrirtækisins, annaðist ýmsa nauðsynlega þjónustu við viðskiptavini sem leituðu til skrifstofunnar og veitti hagnýtar upplýsingar þeim er eftir því sóttust. Nutum við krafta hennar uns hún hélt til heimalands Helge, Noregs, fyrir um fjórum árum. Öll þau störf er hún bar ábyrgð á annaðist hún af kostgæfni og alúð og skilaði ætíð góðu verki. Á litlum vinnustað þurfa starfsmenn að vera liðtækir til margra verka, fleiri verka en sérhæfing þeirra býður. Gurrý féll vel að þessum aðstæðum og gat tekist á hendur ólík störf á skrifstofunni, nýtt krafta sína þannig að úr varð heilsteypt verk með upphaf og endi. Oft lá drjúgt dagsverkið eftir hana enda fór þar kona útsjónarsöm, fljótvirk og örugg. Verða þau verk hennar seint metin að verðleikum.

En það er fleira verðmætt en skilvirkur starfsmaður. Gurrý var einnig góð í félagi við aðra og átti fjalltrausta aðdáendur meðal starfsfélaganna sem gaman höfðu af að gantast og henda gaman af mönnum og málefnum. Oft var þá kátt á hjalla. Hún kunni vel að gleðjast á góðri stundu og var ekki leiðindunum fyrir að fara þegar svo bar undir. Er við kvöddum hana fyrir Noregsförina létu félagarnir það eftir henni að hífa hana, í krana, í hæstu stöðu þannig að gnæfði yfir hús og menn. Þetta lét hún sig hafa þótt lofthrædd væri; lagði það á sig eins og til að hafa gott sjónarhorn yfir vettvang starfa sinna, festa í minni áður en hún kveddi og héldi með fjölskyldu sinni á vit nýrra siða og nýrra tækifæra hjá frændþjóð okkar.

Ekki var annað að heyra en að litlu fjölskyldunni vegnaði vel síðast þegar þau komu í heimsókn til okkar er þau dvöldu hjá foreldrum hennar hér á Selfossi. Það var því reiðarslag að fregna lát hennar. Huggun er þó harmi gegn að eiga um hana margar góðar minningar. Fyrir hönd okkar allra bið ég allar góðar vættir að hlúa að Helge og dætrum þeirra, foreldrum hennar, afa og bræðrum og veita þeim allan þann styrk sem þau þurfa til að lifa við missi ástvinar og til að spjara sig í nýjum veruleika.

Ásbjörn Ólason Blöndal, veitustjóri.