GUÐJÓN GUÐMUNDUR MAGNÚSSON Guðjón eða Gaui eins og afi var oftast kallaður var fæddur á Hóli í Bolungarvík 29. september árið 1899. Foreldrar hans voru hjónin Ingibjörg Sigurðardóttir frá Gilsbrekku í Súgandafirði og Magnús Guðmundsson, f. á Hjöllum í Þorskafirði. Hann ólst upp hjá foreldrum sínum en ungur fór hann í sveitavinnu á ýmsum bæjum eins og algengt var á þeim tíma. Systkini Guðjóns voru Albert, Halldóra, Magnúsína og Sigríður.

Árið 1924 kvæntist hann Ágústu Sigurborgu Steindórsdóttur, f. 11. september 1889 á Snæfjöllum á Snæfjallaströnd. Foreldrar hennar voru Sigurborg Márusdóttir og Steindór Gíslason. Þau bjuggu allan sinn búskap í Hnífsdal. Afi Guðjón stundaði sjómennsku og þá atvinnu mat hann mikils og vann við hana í allmörg ár. Amma Ágústa vann sem prjónakona með meiru og var þekkt sem Gústa prjónakona í litla húsinu við Strandgötuna í Hnífsdal. Þeim varð ekki barna auðið en ólu upp tvö fósturbörn, þau Svanfríði Kristínu Benediktsdóttur, foreldrar hennar voru Jóna P. Sigurðardóttir frá Berjadalsá og Benedikt Ásgeirsson frá Galtarhrygg, og Kristin Benediktsson, foreldrar hans voru Kristín Jónsdóttir og Benedikt Rósi Steindórsson, en hann var bróðir Ágústu.

Svanfríði móður mína tóku þau í fóstur er faðir hennar lést. Hún var á öðru ári en Kristin tóku þau að sér fárra vikna.

Guðjón lést 17. desember 1973 eftir stutta legu á Sjúkrahúsi Ísafjarðar. Afi var einn þeirra dugmiklu manna sem var þjóðfélagi sínu svo dýrmætur, vegna þess að hann lagði til þá undirstöðu með striti sínu sem allt hvílir á en er jafnan vanmetið. Eitt af hans áhugamálum var búskapur og hafði hann aðstöðu til að hafa nokkrar kindur þeim hjónum til mikillar ánægju.

Amma Ágústa lést 19. nóvember 1979 eftir langvarandi veikindi. Ég var svo lánsöm að fá að kynnast afa og ömmu og alast upp hjá þeim að hluta.

Þetta var mér dýrmætur tími og er ég þeim ævinlega þakklát fyrir þá umönnun sem ég fékk.

Ég vil geyma minningu Guðjóns afa og Ágústu ömmu í huga mér í þökk fyrir að fá að hafa átt þau fyrir afa og ömmu.

Guð varðveiti minningu þeirra.

Sigurborg Sveinbjörnsdóttir.