Jónína Guðný Helgadóttir Látin er móðursystir mín, Jónína Guðný Helgadóttir, alltaf kölluð "Ninna" af fjölskyldu sinni og vinum.

Níræð varð hún á síðasta afmælisdegi sínum og hafði átt því láni að fagna að vera tiltölulega vel heilsuhraust allt sitt líf þó dálítið hafi hún verið farin að þreytast síðustu árin. Lát hennar bar þó snöggt að, kvöldið 25. september, þó ekki öllum að óvörum, því vitað var að hún gekk ekki heil til skógar upp á síðkastið. Ég held ég geti fullyrt, að hún kvaddi þetta líf södd lífdaga og í sátt við allt og alla.

En margs er að minnast, þegar litið er yfir níutíu ára langa ævi og get ég aðeins drepið á fátt þar, því samskipti okkar Ninnu voru ekki órofin gegn um árin, þó alltaf höfum við vitað hvort af öðru þrátt fyrir að lönd og höf skildu okkur löngum að.

Það sem batt okkur á sérstakan hátt, var sú staðreynd, að við áttum sama afmælisdag, 27. janúar, á milli bar aðeins átján ár. Þessi aldursmunur skýrir það, að fyrsta hluta ævi minnar var ég mér ekki beint meðvitandi um tilveru hennar, enda bættist hér við, að ég fluttist burt úr Eyjum aðeins sjö ára gamall ásamt fjölskyldu minni. Ég var orðinn 10 eða 11 ára, þegar kynni okkar hófust fyrir alvöru, en þá fékk ég að vera hjá henni eitt sumar í Vestmannaeyjum.

Voru það dýrðardagar fyrir "borgarbarnið", þá orðinn Reykvík- ingur þrátt fyrir skamman dvalartíma í borginni.

Ninna var þá tiltölulega nýgift Guðmundi Ketilssyni, vélstjóra, miklum dugnaðarmanni og einum eftirsóttasta vélstjóra á bátaflota Vestmanneyinga. Leið mér vel hjá þeim hjónum og ömmu minni, Þóru, sem bjó hjá þeim þar og allar stundir síðan, þó flust væri til "meginlandsins" er tímar liðu.

Fljótt kom fram hjá Ninnu, að hún var músikölsk. Fekk hún ung að læra á orgel, en það hljóðfæri var til á æskuheimili hennar í Dalbæ og þar oft mikið sungið og spilað, einkum á þeim tíma er Guðjón, bróðir hennar lifði. Hann dó þó mjög ungur, fórst í sjóslysi á fjarlægum slóðum, öllum harmdauði.

Eftir að Ninna fullorðnaðist var það langur tími, er hún snerti ekki hljóðfæri, allt til þess tíma, er dóttir hennar eignaðist píanó á Selfossi. Þótti henni þá gaman að taka í píanóið og mundi þá furðumikið af því, er hún hafði lært forðum daga.

Fleira var henni til lista lagt. Saumaskapur lék í höndum hennar, svo og aðrar hannyrðir, og svo kom að því, að hún fór að fást við listmálun. Varð það hennar aðalfrístundaiðkun og tókst þar vel upp, þó aldrei fengi hún tækifæri til að læra þar til. Hún var listamaður af Guðs náð, eins og sagt er. Málaði hún aðallega landslagsmyndir, fyrirmyndirnar fyrst úr Vestmannaeyjum og svo víðar að, eftir að hún fluttist þaðan. Ég á eina góða mynd eftir hana, sem ég held mikið upp á.

Á unga aldri lærði Ninna hárgreiðslu. Nam hún hjá frú Krag í Reykjavík. Stundaði hún þá iðn aðallega meðan hún bjó í Eyjum en lítið eftir brottflutning þaðan.

Þau Guðmundur fluttust brott úr Eyjum árið 1947, bjuggu fyrst eitt ár á Stokkseyri meðan Guðmundur byggði húsið að Smáratúni 4, Selfossi, en fluttust svo þangað, þar sem þau bjuggu síðan með fjölskyldu sína. Er tímar liðu dreifðist fjölskyldan af eðlilegum ástæðum, en Viktoría bjó áfram að Smáratúni 4 ásamt sinni fjölskyldu og foreldrum sínum. Þar bjó Ninna til dauðadags.

Ninna hafði mikið yndi af ferðalögum og ferðaðist eins mikið og hún gat við komið, aðallega seinni ár ævi sinnar, bæði innanlands og utan. Sýndi hún þar mikinn dugnað og áræði, var yfirleitt föst fyrir í því, sem hún vildi gera.

Kom hún þar mér oft á óvart, því hlédrægni og hógværð var hennar aðalsmerki. Hún var ekki málgefin, vildi frekar hlusta, en tala. Í gegnum lífið tók hún öllu með jafnaðargeði og rólyndi, meðlæti jafnt sem mótlæti, hún var ekki gjörn á að barma sér né kvarta. Og þegar hún gladdist, þá var það oftast hlýlegt bros, sem gaf það til kynna, ekki meira.

Þannig minnist ég hennar, og kveð hana með söknuði.

Votta ég, og fjölskylda mín, börnum hennar og öllum aðstandendum dýpstu samúð við fráfall hennar. Blessuð sé minning hennar.

Baldur Bjarnasen.