Jónína Guðný Helgadóttir Óvissuferðir eru í tísku þessa dagana. Þátttakendur vita ekki hvert förinni er heitið en vita að þeir eiga í vændum skemmtilegan dag. Ég get samglaðst tengdaömmu minni með að komast í sitt ferðalag nú þegar hún hafði notið góðra ævidaga og ekki var hægt að búast við öðru fyrir hennar hönd en að heilsan og lífsgæðin færu heldur niðurávið. Það var dásamlegt að hún skyldi geta verið með eigið heimili til síðasta dags, börnin hennar eiga heiður skilið fyrir að hafa gefið henni möguleika á því. Auðvitað var Ninna ein heima mestan part dagsins meðan Viddý og Palli voru í vinnunni, hún var nú ekki að barma sér yfir því; hún var sjálfri sér nóg. Það var ekki fyrr en síðustu fjögur árin sem hún gekk inn í heimili dóttur sinnar með mat og þvotta, fram að því hafði hún séð nánast alveg um sig sjálf og það er nú meira en hægt er að reikna með á þessum aldri. Helgi veitti Ninnu mikinn og góðan félagsskap, hann var daglegur gestur hjá henni þegar hann var á landinu á annað borð og alltaf tilbúinn til að keyra hana þegar hún þurfti að fara eitthvert. Auðvitað létti það jafnframt á Viddý, þetta var alltaf hin besta samvinna.

Ninna var alltaf svo jákvæð, hún var nú ekki að gera veður út af hlutunum. Nótt eina stalst köttur inn um gluggann hjá henni og hún vaknaði við að hann stökk ofan á sængina hennar. Sumum hefði víst brugðið við minna, en hún kippti sér ekkert upp við það heldur fór á fætur og kom honum út! Ninna var engin æsingamanneskja, það var aldrei hávaði í kringum hana. En hún var ákveðin og fékk flestu framgengt með hægðinni sem hún vildi. Fyrir tveim árum fór ég að skrifa niður bernskuminningar Ninnu, okkur til gamans. Hún sagði afar skemmtilega frá enda var hún bæði minnug og fróð. Enginn veit fyrirfram hvenær ævinni lýkur, en víst hefði verið gaman að geta þakkað Ninnu fyrir skemmtilega samveru á liðnum árum.

Sigrún.