Guðríður Erna Guðmundsdóttir Náttúran skartar sínu fegursta þessa dagana. Við njótum allra fallegu haustlitanna, kvöldsólarinnar og kyrrðarinnar. Sjáum hlíðina speglast í vatninu og stöldrum við eitt andartak til að undrast yfir logninu og litunum. Mér leið vel í kyrrðinni uppi í Heiðmörk þennan dag, en var engan veginn búin undir þær slæmu fréttir sem biðu mín þegar heim kom. "Hún Gurrý er dáin." Margar eru þær hugsanir og minningar sem þyrlast um hugann á slíkri stundu. Allt í einu er ungri konu svipt í burtu frá okkur, og eftir stöndum við hnípin og spyrjum: Hvers vegna? Af hverju? Og fáum engin svör. Við getum einungis leitað huggunar í öllum þeim góðu minningum sem við eigum um hana Gurrý.

Ég minnist hennar þegar ég kynntist henni heima hjá afa hennar og ömmu, tengdaforeldrum mínum, Sigurgeiri og Guðríði, þá var hún ung og falleg stelpa sem ég kunni strax svo vel við. Þá fannst mér ég svo miklu eldri og reyndari, þó að ekki munaði nema sjö árum á okkur. Ég minnist hennar þegar hún eignaðist hana Írisi Hödd, hve hún var stolt af stelpunni sinni. Þá var Siggi minn bara ársgamall og ég ekkert mikið reyndari en Gurrý. Síðar kynntist hún Helge sínum og saman eignuðust þau hana Lenu Mist. Ég minnist þess hve Gurrý var dugleg að hóa fjölskyldunni saman, það átti hún sameiginlegt með ömmu sinni og nöfnu. Það lék líka allt í höndunum á henni Gurrý, þó að hún nýtti sér hæfileika sína ekki á þessu sviði fyrr en hún fór að læra blómaskreytingar. Um síðustu jól fengum við að njóta þess, því skreytingarnar sem komu frá Gurrý voru einstakar. Gurrý var alltaf glöð í góðra vina hópi og þegar þau Helge fluttust til Noregs veit ég að fleiri söknuðu hennar en bara fjölskyldan. Og nú er hennar enn sárar saknað.

Með þessum fátæklegu orðum sendum við Pálmar ykkur öllum samúðarkveðjur og vonum að þið látið ljós góðra minninga um Gurrý lýsa ykkur komandi daga.

Elsku Gurrý, ég vil kveðja þig með þessu ljóði eftir Hannes Pétursson:

Haust. Og garðflatir

grænar við sjóinn fram.

En reyniviðarhríslur

rauðar, í gulu ljósi.



Samtímis deyja

ekki sumarsins grös og lauf.

Allt deyr

að eigin hætti.

Allt deyr

en óviss er dauðans tími.



Dauðinn er regla

sem reglur ná ekki til.

Valgerður K. Sigurðardóttir.