GUÐRÍÐUR ERNA GUÐMUNDSDÓTTIR

Guðríður Erna Guðmundsdóttir fæddist í Vestmannaeyjum 4. mars 1963. Hún lést í Tönsberg í Noregi 24. september síðastliðinn. Foreldrar Guðríðar eru Guðmundur Birnir Sigurgeirsson, mjólkurfræðingur, f. 31.7. 1944, og Ágústa Traustadóttir, f. 12.2. 1943. Bræður Guðríðar eru Trausti, f. 24.3. 1964, í sambúð með Ingibjörgu Aradóttur og eiga þau soninn Elmar Ás. Trausti átti fyrir soninn Ragnar Örn; Sigurgeir, f. 3.1. 1966, í sambúð með Soffíu G. Kjartansdóttur og eiga þau soninn Konráð Elí. Guðríður eignaðist dótturina Írisi Hödd Pétursdóttur 2.6. 1982. Sambýlismaður Guðríðar er Helge Rise frá Oppdal í Noregi. Dóttir þeirra er Lena Mist, f. 19.2. 1993. Helge og Guðríður bjuggu í Noregi sl. 4 ár. Guðríður bjó áður á Selfossi þar sem hún tók verslunarpróf og starfaði m.a. hjá Selfossveitum. Í Noregi lærði hún blómaskreytingar og starfaði við það til dauðadags. Útför Guðríðar fer fram í Selfosskirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 13.30.