Guðríður Erna Guðmundsdóttir Elsku Gurrý frænka.

Þú féllst með haustlaufunum, svo alltof fljótt. Hvers vegna ung kona í blóma lífsins? Sagt er að þeir deyi ungir sem guðirnir elska og að þörf sé fyrir fólk á æðri sviðum, en hvar væri meiri þörf fyrir þig en hjá Helga og dætrunum. Hvers vegna frá ástkærum manni og tveim ungum dætrum? Ég spyr en fátt er um svör ef stórt er spurt. Hvers vegna fékkst þú ekki meiri kvóta? Hvers vegna fékkst þú ekki að fylgjast með dætrum þínum, Írisi Hödd og Lenu Mist vaxa og dafna? Hvers vegna fékkst þú ekki að fylgjast með þeim, annast þær, sjá þær komast til þroska, sjá þær verða að fullþroskuðum einstaklingum? Hvers vegna spyrjum við sem eftir sitjum og drúpum höfði, með sorg í hjarta, hvers vegna?

Við fáum engin svör en elsku Gurrý, minningin um þig lifir í hjörtum okkar og í dætrum þínum. Já, elsku Gurrý, í dætrum þínum, sem koma til með að verða mesta huggun foreldra þinna og Helga og annarra ættingja. Þau fá það hlutverk að taka við af þér og hlúa að þeim. Hvers vegna spyrjum við, en dauðinn er órjúfanleg heild af lífinu og það vitum við, samt kemur hann stöðugt á óvart.

Mörg eru minningabrotin frá okkar lífi í gegnum tíðina. Við vorum systradætur, fæddar sama árið, þú í mars, ég í apríl, þannig að stutt var á milli okkar og þó að ég ætti heima í Eyjum áttum við margar glaðar stundir saman. Bernskuárin liðu fljótt, svo alltof fljótt, en minningarnar eru ljúfar um ferðalögin sem við fórum í með foreldrum okkar og systkinum þeirra og börnum. Þá var nú oft glatt á hjalla og margt brallað og er þetta ómetanlegur fjársjóður í minningunni. Ljúfar áttum við stundirnar í Eyjum og á Selfossi og man ég hvað mér þótti mikið ævintýri að koma með þér í búðina hjá afa Geira og ömmu Gauju, sem nú er látin, allt var það svo spennandi og framandi fyrir mér en svo ofureðlilegt í þínum huga og er þetta erfið raun fyrir afa þinn að sjá á eftir þér svo óvænt og alltof fljótt.

En bernskuárin voru að baki, við fórum hvor sína leið. Þú varst komin með eitt barn, hana Írisi Hödd, ég hafði öðru að sinna, en aftur náðum við saman er við áttum báðar von á barni, þú hana Lenu Mist en ég Aron minn. Þá höfðum við um margt að tala. Er þú fluttir með Helga þínum til Noregs urðu tengslin minni því þannig er það nú á þessari tækniöld okkar og í asa hversdagslífsins að tíminn er svo fljótur að líða, það finnur maður á svona stundum.

Um seinustu jól er þú komst heim til Íslands til að halda jólin með fjölskyldu þinni komst þú í heimsókn til mín með Helga og Lenu Mist. Elsku Gurrý, ég sit hér við eldhúsborðið og hugsa um síðustu stundirnar okkar saman hérna við þetta borð, þú svo glöð og hamingjusöm, leist svo vel út, hamingjan skein frá ykkur Helga. Við vorum að tala um að ég kæmi til ykkar í heimsókn en enginn ræður sínum næturstað.

Ég mun minnast þín eins og þú varst þarna og er það góð minning.

Elsku Gurrý, þú ert horfin inn í haustið, ert fallin í valinn eins og haustlaufin. Þú hafðir lært blómaskreytingar í Noregi og hafðir atvinnu við það og voru haustlitirnir í sérstöku uppáhaldi hjá þér. Elsku frænka, þú barst með þér ferskleika og fegurð haustsins.

Elsku Helgi, Íris Hödd, Lena Mist, Gústa, Biddi, Trausti og Sigurgeir og aðrir aðstandendur, sorg ykkar er mikil en minning um góða manneskju lifir.

Ég sakna þín, elsku frænka.

Mér finnst ég hvorki heill né hálfur maður

og heldur ósjálfbjarga því er verr,

ef værir þú hjá mér, vildi ég glaður

verða betri en ég er.



Eitt sinn verða allir menn að deyja.

Eftir bjartan daginn kemur nótt.

Ég harma það, en samt ég verð að segja,

að sumarið líður alltof fljótt.



Horfið er nú sumarið og sólin

í sálu minni hefur gríma völd.

í æsku léttu ís og myrkur jólin;

Nú einn ég sit um vetrarkvöld.

Því eitt sinn verða allir menn að deyja.

Eftir bjartan daginn kemur nótt.

Ég harma það, en samt ég verð að segja,

að sumarið líður alltof fljótt.

(Vilhj. Vilhjálmsson.) Ágústa Dröfn Guðmundsdóttir.