Guðríður Erna Guðmundsdóttir "Þú skalt ekki hryggjast, þegar þú skilur við vin þinn, því að það, sem þér þykir vænst um í fari hans, getur orðið þér ljósara í fjarveru hans, eins og fjallgöngumaður sér fjallið best af sléttunni." (Kahlil Gibran.)

Elsku Gurrí okkar. Þú ert farin. Haustið þitt er komið og litirnir þínir sem birtast í náttúrunni umvefja okkur ásamt minningum um þig. Nú þegar við kveðjum þig reikar hugurinn til baka til allra góðu samverustundanna sem við áttum saman. Þegar við töluðum saman um lífið og dauðann var það fjarri huga okkar að einhver úr hópnum færi svo fljótt. En þrátt fyrir allar slíkar hugleiðingar í góðra vina hópi vitum við öll að lífið bæði gefur og tekur. Þegar við setjumst niður núna langar okkur að segja svo margt en orðin verða svo fátækleg og innantóm borið saman við allar ljúfu stundirnar. Þú sem hélst svo vel utan um hópinn, skipulagðir útilegur, hótelferðir og bauðst í stórar matarveislur þar sem þið Helge nutuð ykkar svo vel. Þú varst alltaf svo hrein og bein í samskiptum við fólk og svo trygg við fjölskyldu þína og nánustu vini. Þú varst okkar stoð og stytta.

Elsku Helge, Íris Hödd, Lena Mist, Biddi, Gústa og aðrir ástvinir, missir ykkar er mikill. Megi góður Guð styrkja ykkur og vernda í sorg ykkar og láta minninguna um Gurrí lifa um ókomin ár.

Hún horfin er, ó, hverfullegu skiftin,

svo hýr um kvöld, að morgni fölur nár;

hve tómt í húsum eftir sjónarsviftin

þar sanna gleði skóp hún mörg um ár.



Sú blessuð lilja er brotin dauðans hendi,

svo björt og hrein, svo innilega kær.

Hún angan ljúfa lífs í blóma sendi.

Nú lögð í duft er prýðin hennar skær.



Og hvíl með friði, góða víf, í guði,

sem gaf og tók, hans náðin veitti þér

að endurvakna í sælum samfögnuði

til samfunda með því sem kærast er.

(Steingrímur Thorsteinsson.) Þínir vinir,

Rut og Leifur, Steinunn Eva og Ottó Valur, Hrefna og Guðjón.