Herdís Sigtryggsdóttir Mig langar í fáeinum orðum að minanst ömmu minnar Herdísar Sigtryggsdóttur. Þegar afi og amma hættu búskap fyrir aldurssakir fluttust þau úr Reykjadalnum til Húsavíkur fyrir ríflega aldarfjórðungi. Amma var hlý kona og mátti ekkert aumt sjá. Heimili hennar og afa var ávallt opið fyrir ættingjum og vinum og þar var mikill gestagangur. Mér eru minnisstæðar heimsóknir okkar systkinanna á Túngötuna. Þangað komum við iðulega að loknum skóladegi, ýmist saman eða hvert í sínu lagi. Þar var ekki komið að tómum kofunum. Dúkur var breiddur á sporöskjulagað eldhúsborðið, kakó hitað og síðan var hverri kökusortinni af annarri raðað á borðið: ískaka, hraunkaka, piparkökur, sykurkökur, skyrkökur o.s.frv. Þarna sat ég stelpuskottið og drakk heitt kakó úr hvítum bolla og raðaði í mig kræsingunum. Þegar amma var búin að bera á borð settist hún niður og sagði sögur eftir pöntunum. Hún kunni ógrynnin öll af sögum og vísum en sagan um Stjörnuauga og átján barna föður í álfheimum voru í sérstöku uppáhaldi hjá mér. Hún hafði líka sérstakt lag á að segja á ljóslifandi hátt frá atburðum sem hún hafði upplifað á árum áður. Amma hafði átt viðburðaríka en oft á tíðum óblíða ævi. Hún starfaði sem ljósmóðir á millistríðsárunum, oft við erfiðar aðstæður. Hún sagði okkur frá því þegar hún gekk á gönguskíðum um hávetur, oft langar leiðir, til að sinna konum í barnsnauð og þegar hún astoðaði héraðslækninn við uppskurð á eldhúsborðinu í læknisbústaðnum. Í kjölfar einnar vitjunar til sægurkonu fékk hún mænusóttina sem lamaði annan fót hennar og bar hún þess merki alla ævi. Hún var farsæl í starfi en ljósmóðurstarfið lagði hún á hilluna eftir að hún hóf búskap með afa og eignaðist sín börn.

Amma var af gamla skólanum og setti hún óneitanlega sitt mark á uppvöxt okkar systkinanna. Hún var ófeimin við að leggja mér og systkinum mínum lífsreglurnar og reyndi að kenna okkur dygðir og góða siði. Ég mun ávallt búa að þeim gildum sem hún amma mín innrætti mér. Það verður óneitanlega tómlegt að koma heim til Húsavíkur um þessi jól og hafa hana ömmu ekki hjá okkur en ég er viss um að henni líður vel þar sem hún er núna.

Herdís Hreiðarsdóttir.