Jónína Guðný Helgadóttir Margar minningar sækja á hugann þegar við hugsum til hennar ömmu okkur, Jónínu Guðnýjar Helgadóttur sem nú er látin. Við bræðurnir urðum þeirrar gæfu aðnjótandi að alast upp með ömmu og afa í sama húsi, en afi lést árið 1981.

Allt frá fæðingu þar til við fluttumst að heiman sem ungir menn bjuggum við undir sama þaki og amma. Þetta hafði óneitanlega mikil áhrif á uppvöxt okkar og viðhorf til lífsins. Enda var samband okkar við hana mjög náið og gott var að ræða við hana um hin og þessi málefni. Amma fylgdist alltaf vel með því sem við aðhöfðumst og hvatti okkur til dáða. Það verður skrýtið að koma í heimsókn til foreldra okkar á æskuheimilið og geta ekki gengið að ömmu vísri.

Aðalsmerki ömmu var hógværð og hlédrægni og fátt gat komið henni í uppnám. Alltaf hélt hún ró sinni og aldrei hækkaði hún málróminn við okkur bræðurna enda þótt oft gengi mikið á í húsinu. Nú á fullorðinsárum gerir maður sér grein fyrir því hve þolinmóð hún var gagnvart okkur í uppvextinum. Aldrei virtist það trufla hana hið minnsta enda þótt okkur fylgdi stundum töluverður hávaði. Þvert á móti sagðist hún njóta þess að heyra að líf væri í húsinu og eðlilegt væri að það heyrðist aðeins í okkur.

Amma var af þeirri kynslóð sem eigi fékk notið þeirra góðu menntunarmöguleika sem ungt fólk hefur í dag. Hún stundaði sjálfsnám af krafti, hafði unun af því að lesa og fræðast og voru tungumál, landafræði, saga og bókmenntir henni hugleikin. Sem dæmi má nefna að á gamals aldri tók hún að læra erlend tungumál af Lingaphone- námskeiðum. Hvað varðar góðar gáfur hennar er okkur minnisstætt að ein jólin spilaði hún Trivial Pursuit með okkur bræðrum og nokkrum vinum, en það spil reynir á margskonar fróðleik. Röðin var varla komin að okkur þegar hún var búin að sigra okkur í spilinu með því að svara öllum spurningunum rétt. Kom þetta nokkuð flatt upp á okkur langskólagengið fólkið og minnti okkur á að skólaganga og viska eru ekki það sama.

Ekki er hægt að minnast ömmu án þess að nefna hve listfeng hún var. Hún hafði mikið dálæti á myndlist og tónlist. Landlagsmálverkin hennar bera listhæfileikunum gott vitni og málaði hún mikið af olíumálverkum. Snemma í æsku uppgötvuðust tónlistarhæfileikar ömmu, en vegna aðstæðna lærði hún á hljóðfæri aðeins í fáeina mánuði. Löngu seinna þegar foreldrar okkar bræðra keyptu píanó kom í ljós að amma hafði lært mikið á þessum stutta tíma því hún gat leikið á píanóið flókin lög eftir nótum þrátt fyrir að hafa ekki snert hljóðfæri í áratugi.

Amma hafði mikinn áhuga á blómarækt og voru ófáar stundirnar sem hún eyddi í gróðurhúsinu, annaðhvort að líta eftir blómum eða við lestur. Það var hennar líf og yndi að sitja og lesa í gróðurhúsinu umlukt blómum. Skemmtilegast þótti henni að lesa eitthvað um Vestmannaeyjar og vorum við bræðurnir vanir að gefa ömmu eitthvað í jólagjöf sem tengdist Vestmannaeyjum, enda var hún fædd og uppalin þar.

Elsku amma, nú þegar þú hverfur yfir móðuna miklu á vit látinna vina og vandamanna verðurðu væntanlega einhvers vísari um afdrif bróður þíns, Guðjóns, sem hvarf með bátnum Rigmor einhvers staðar á Atlantshafi á leið frá Spáni í byrjun aldarinnar.

Við eigum margar góðar minningar um þig sem við munum geyma með okkur. Guð geymi þig og hafðu þökk fyrir allt.

Bjarni og Smári.