Jónína Guðný Helgadóttir Að heilsast og kveðja er lífsins saga. Það eru orð að sönnu og koma í huga minn er ég minnist í nokkrum fátæklegum orðum hennar Ninnu, fyrrverandi tengdamóður minnar. Og þegar ég set þessar línur á blað, naga ég mig í handarbökin fyrir hversu ódugleg ég var að líta inn hjá henni. Maður þykist alltaf vera svo önnum kafin í brauðstritinu, að ekki sé tími til að rækta vina- og ættartengslin. Þetta kemur manni til að hugsa: Hvað er mikilvægara en að halda sambandi við vini og venslafólk, gleðja aðra? Því dauðinn gerir yfirleitt ekki boð á undan sér og það sem maður ætlar að gera seinna getur orðið um seinan. Þá sér maður eftir því að hafa ekki gert meira af því að rækta vináttuna. Hún Ninna átti það svo sannarlega inni hjá mér að ég hefði oftar samband við hana en ég gerði.

Hún var afskaplega hæglát kona og það fór aldrei mikið fyrir henni, hæglætið og prúðmennskan voru hennar aðalsmerki fram í andlátið. Að láta ekki aðra hafa of mikið fyrir sér. Ég á henni Ninnu svo ótal margt að þakka, svo oft leit hún eftir börnunum mínum þegar ég var að vinna og aldrei var farið fram á laun fyrir.

Ég minnist þess, þegar Jón Þór, yngsti sonur minn, var að fara í heimsókn til ömmu og afa í Smáró, eins og hann sagði alltaf, þá smápjakkur. Þá sagði hann mér stundum að hann þyrfti að færa henni ömmu steina, hann vissi sem var að hún átti svolítið steinasafn, og við það vildi hann bæta. Reyndar voru nú steinarnir hans ekki alltaf merkilegir, bara þeir sem fundust á götunni og svona hingað og þangað. Eitt sinn sem oftar þegar hann fór til hennar, færði hann henni blómvönd. Reyndar vissi ég ekki af því fyrr en hún sagði mér það, og grun hef ég um að hann hafi tínt þau upp einhvers staðar á leið sinni. Hann þurfti alltaf að gefa ömmu eitthvað. Þá var hann afi hans, Guðmundur, sem lést fyrir allmörgum árum, alltaf að gefa honum nokkrar krónur á meðan hann lifði, og þegar hann dó þá sagði drengurinn: Hver á nú að gefa mér pening úr því að hann afi minn er dáinn?

Já, ég vil þakka henni Ninnu öll þægilegheitin og hversu góð hún var mér. Ástvinum hennar öllum sendi ég innilegar samúðarkveðjur. Minningin um góða konu lifir í hjörtum okkar.

Far þú í friði,

friður Guðs þig blessi,

hafðu þökk fyrir allt og allt.

(V. Briem.) Sæunn Sigurlaugsdóttir.