Guðríður Erna Guðmundsdóttir Það er alveg rosalega erfitt að hugsa út í það að ég eigi aldrei eftir að faðma þig aftur og segja þér hve mikið mér þykir vænt um þig og finna fyrir gleðinni og hamingjunni innra með mér þegar þú segir mér hve mikið þú elskir mig. Eða bara að sjá fallega brosið þitt og hlýjuna og góðvildina í augunum þínum þegar ég kem í heimsókn til Noregs eða þú hingað heim. Fá að heyra skammirnar ef einkunnirnar mínar eru ekki sem bestar og hrósið þegar mér gengur vel. Öll þessi smáatriði sem ég hélt að skiptu ekki svo miklu máli en þegar ég átta mig á því að þú verður ekki hér að deila þeim með mér þá getur eitt smáatriði verið mesta mál.

Ekki varstu bara móðir mín, heldur líka besti vinur minn. Þótt það kæmi fyrir að við rifumst þá áttum við líka mjög góðar stundir saman og þær stundir mun ég geyma í minningu minni og hjarta ásamt fegurð þinni og ást. Og þó ég ætti bara 17 ár með þér voru það mín góðu ár og ég veit að þú ert á góðum stað núna og ég mun ávallt elska þig og ég veit að þú munt ávallt elska mig.

Þótt við getum ekki verið saman í heimi lifandi manna þá verðum við saman í mínu hjarta að eilífu.

"Þá mælti Almítra:

Mál er nú að spyrja um dauðann.

Og hann sagði:

Þú leitar að leyndardómi dauðans. En hvernig ættir þú að finna hann, ef þú leitar hans ekki í æðarslögum lífsins? Uglan, sem sér í myrkri, en blindast af dagsbirtunni, ræður ekki gátu ljóssins. Leitaðu að sál dauðans í líkama lífsins, því að lífið og dauði er eitt eins og fljótið og særinn. Í djúpi vona þinna og langana felst hin þögla þekking á hinu yfirskilvitlega, og eins og fræin, sem dreymir undir snjónum, dreymir hjarta þitt vorið. Trúðu á draum þinn, því hann er hlið eilífðarinnar. Óttinn við dauðann er aðeins ótti smaladrengsins við konung, sem vill slá hann til riddara. Er ekki smalinn glaður í hjarta sínu þrátt fyrir ótta sinn við að bera merki konungsins? Og finnur hann þó ekki mest til óttans? Því að hvað er það að deyja annað en standa nakinn í blænum og hverfa inn í sólskinið? Og hvað er að hætta að draga andann annað en að frelsa hann frá friðlausum öldum lífsins, svo að hann geti risið upp í mætti sínum og ófjötraður leitað á fund guð síns? Aðeins sá, sem drekkur af vatni þagnarinnar, mun þekkja hinn volduga söng. Og þegar þú hefur náð ævitindinum, þá fyrst munt þú hefja fjallgönguna. Og þegar jörðin krefst líkama þíns, muntu dansa í fyrsta sinn." (Spámaðurinn).

Íris Hödd.