Guðrún Aðalsteinsdóttir Þó að Guðrún frænka mín byggi mörg síðustu ár ævi sinnar á Egilsstöðum þá verður hún í mínum augum alltaf Guðrún í Klausturseli. Þar kynntist ég henni fyrst og þekkti hana árum saman í tengslum við þann stað. Ég kom oft í Klaustursel, dvaldi þar jafnvel dögum saman, og ég fann aldrei fyrir því að ég væri gestur. Þeim hjónum, Guðrúnu og Jóni heitnum, var gestrisni eðlileg.

Í Klausturseli runnu lækirnir niður brekkurnar, féð var á beit í fjallshlíðinni og það var tekið á móti gestum af áreynslulausri velvild. Árum saman taldi ég þetta allt til náttúrulögmála.

Guðrúnar Aðalsteinsdóttir hafði óbilandi áhuga á mannlífinu; áhuga á því að kynnast fólki og fá sjálf að vera til og lifa lífinu eins og stoltum og fullgildum einstaklingi ber. Hún var fluggreind kona. Hún sótti sér húsmæðramenntun og vann fyrir sér árum saman sem húsmæðrakennari og mötuneytisstjóri. Við vorum samtíða nokkur ár við Menntaskólann á Egilsstöðum, þar sem hún rak mötuneyti, og þá gat ég ekki annað en hugsað að hefði Guðrún verið á skólaaldri þegar sá menntaskóli tók til starfa hefði hún skotið flestum skólasystkinum sínum ref fyrir rass. Tímarnir voru hins vegar aðrir þegar Guðrún var ung. Þá þótti ekki sjálfsagt að konur spreyttu sig á menntabrautinni. Það þótti ekki einu sinni sjálfsagt að konur á aldri Guðrúnar tækju bílpróf. Guðrún frænka mín lét það ekki stöðva sig, tók sitt bílpróf og keyrði stóráfallalaust út um allar trissur í mörg ár. Hins vegar tók hún prófið seint og þess gætti nokkuð í ökulagi. Vafalaust hafa hinir og þessir karlar látið þess getið við Guðrúnu að hún æki ekki á réttan hátt en ég sat einu sinni í bílnum hjá henni niður Jökuldal og það hvarflaði ekki að mér að bjóða henni að keyra. Við spjölluðum um alla heima og geima eins og við vorum vön og eftir klukkutíma akstur lítur Guðrún á mig og segir áhugasöm: Hvers vegna ertu ekki hræddur í bíl hjá mér? Hvers vegna ætti ég að vera það, spurði ég á móti? Það verða yfirleitt allir karlmenn skíthræddir þegar ég sest undir stýri, sagði Guðrún íhugul og svo ræddum við það ekki meira því hvorugt okkar hafði mikinn áhuga á þess háttar aumingjaskap. Ég hef hins vegar aldrei getað gleymt þessu litla samtali því það sýndi mér hve erfitt ýmiss konar fordómamenn gátu átt þegar Guðrún Aðalsteinsdóttir var annars vegar. Ástæðan held ég kannski að hafi verið sú að fordómar þrífast á kjarkleysi en Guðrún frænka mín skildi það orð aldrei sérlega djúpum skilningi. Hún þorði alla tíð að velja skoðanir sínar sjálf, hún starfaði árum saman að stjórnmálum og var um sinn burðarás Alþýðubandalagsins á Egilsstöðum.

Þegar við Dagný, kona mín, komum að Menntaskólanum á Egilsstöðum, með ungan son okkar, var Guðrún þar matráðskona og tók á móti þessari litlu fjölskyldu eins og hún ætti í henni hvert bein. Þar störfuðum við í þrjú ár. Ég held að hún hafi þekkt alla nemendur í skólanum með nafni og ég veit að aragrúi unglinga sem var að heiman í fyrsta skipti átti í henni traustan vin, eins konar íhlaupamóður sem hægt var að leita til ef menn vantaði matarbita, bjartsýni eða kjark. Guðrún var foreldrum sínum ómetanleg þegar þau fluttu á elliheimilið á Egilsstöðum. Hún vakti yfir þeim og studdi þau af einlægni fram á síðustu stund.

Börn Guðrúnar eiga það sameiginlegt að bera lífsviðhorfi móður sinnar fagurt vitni. Með þessum greinarstúf langar mig til þess að flytja þeim, mökum þeirra og börnum samúðarkveðjur okkar Dagnýjar, sona okkar, Snorra og Árna, móður minnar, Sigurbjargar Jóhannsdóttur og manns hennar, Árna Guðjónssonar.

Kristján Jóhann Jónsson.