Ólafía Kristín Kristjánsdóttir Kæra frænka. Það er erfitt að ætla sér að setja minningar á blað, þegar þær eru svo margar. Ég bjó í næsta húsi við ykkur frá 7 ára aldri þangað til ég var 25 ára og flutti í burtu. Á þínu heimili var ég eins og heima hjá mér, bankaði aldrei, labbaði bara inn, og það þótti allt í lagi, svo mikill var samgangurinn á milli heimilanna. Margar nætur gistum við Bogga saman heima hjá ykkur eða heima hjá mér, minnisstæðust er mér nóttin þegar brjálaða veðrið var í Grindavík, þú og Helgi og foreldrar mínir fóru út saman þetta kvöld og undir morgun skall veðrið á. Þegar við vöknuðum um morguninn litum við Bogga út um baðherbergisgluggann og sáum hvar þakplötur fuku af húsinu heima hjá mér. Við litum hvor á aðra og hræðslan skein úr augunum á okkur. Ég hélt að eitthvað hefði komið fyrir foreldra mína en þú og Helgi reynduð að hugga og sannfæra mig um að allt væri í lagi með þau, en það gekk ekki fyrr en Helgi leiddi mig heim í þessu brjálaða veðri og sýndi mér að allt væri í lagi með þau, að mér fór að líða betur. Þegar ég var í skóla hafði ég lítinn áhuga á handavinnu, svo ég kom alltaf til þín að fá hjálp við þetta, og þú sast tímunum saman og reyndir að kenna mér, því þú hafðir alltaf tíma og þolinmæði fyrir mig. Þakka þér fyrir allt sem þú gafst mér.

Ég sendi Helga, Boggu, Valda, Ellu og fjöldskyldum mínar innilegustu samúðarkveðjur.

Megi guð styrkja ykkur á erfiðri stundu.

Við þökkum samfylgd á lífsins leið,

þar lýsandi stjörnur skína,

og birtan himneska björt og heið

hún boðar náðina sína.

En alfaðir blessar hvert ævinnar skeið

og að eilífu minningu þína.

Hvíl í friði.

Valgerður Magnúsdóttir.