Ingunn Ólafsdóttir Hin langa þraut er liðin,

nú loksins hlauztu friðinn,

og allt er orðið rótt,

nú sæll er sigur unninn

og sólin björt upp runnin

á bak við dimma dauðans nótt.

(V. Briem) Elsku Inga frænka. Nú hefur þú fengið hvíldina eftir erfið veikindi. En eftir sitja minningarnar og þær eru margar. Þegar við komum í heimsókn til ykkar Bjargar á Brávallagötuna með pabba og mömmu kepptumst við alltaf um að fá að sitja í tröppunum við vaskinn. Alltaf var til eitthvert dót í skápnum og ósjaldan eitthvað sætt sem gott var að maula. Þegar við eltumst og vorum í heimsókn hjá ömmu og afa á Hofsvallagötunni var oft hlaupið yfir róló til að kíkja í heimsókn og fá eitt mjólkurglas hjá þér. En eitt mjólkurglas þýddi yfirleitt veislu því að alltaf var til ýmislegt góðgæti. Heimalöguð kæfa, sú besta í heimi, heimalagað marmelaði, nýsteiktir ástarpungar og margt, margt fleira. Og ef einhverjir kunningjar voru með í för þá voru þeir ávallt velkomnir því að alltaf var nóg til. En nú ert þú farin og afi Aðalsteinn, Björg og amma og afi á róló taka án efa vel á móti þér.

Margs er að minnast,

margt er hér að þakka.

Guði sé lof fyrir liðna tíð.

Margs er að minnast,

margs er að sakna.

Guð þerri trega tárin stríð.

(V. Briem) Takk fyrir allt.

Aðalsteinn, Hjálmar og Þórína.