Ingunn Ólafsdóttir Vagninn þinn er kominn, elsku Inga frænka. Mér finnst vanta svo mikið að geta ekki farið á Brávallagötuna að heimsækja þig. Maður kom aldrei að tómu húsi þar því að alltaf var einhver hjá þér. Þú varst alltaf að bralla eitthvað í eldhúsinu og ég settist alltaf í tröppuna í horninu og horfði á þig mauka marmelaði, búa til kæfu eða smyrja brauð handa mér og pabba. Þegar við komum til Reykjavíkur að heimsækja ömmu og afa kom ég alltaf yfir með pabba því að við tvö vorum mestu morgunhanarnir. Það var nú ekki langt að fara til þín frá ömmu og afa, bara að hlaupa yfir róló. En nú er orðið hálftómlegt að koma í vesturbæinn því að nú fer ég hvorki á Hofsvallagötuna né Brávallagötuna lengur. En ég á allar minningarnar og ég varðveiti þær vel. Elsku Inga frænka, ég þakka þér fyrir allar þær stundir sem þú gafst mér og minni fjölskyldu. Ég veit að amma og afi á róló taka vel á móti gömlum nágranna. Við viljum kveðja þig með þessari bæn:

Legg ég nú bæði líf og önd,

ljúfi Jesú, í þína hönd.

Síðast þegar ég sofna fer

sitji Guðs englar yfir mér.

(Hallgr. Pét.) Hvíl þú í friði.

Soffía, Guðmundur, Sylvía og Alexander.