Ólafía Kristín Kristjánsdóttir Elsku amma, það er erfitt að sætta sig við að fá ekki að hitta þig meir, fá ekki lengur að heyra þinn ljúfa hlátur og sjá þitt indæla og traustvekjandi bros.

Þinn persónuleiki var svo sterkur. Þú hafðir áhrif á flesta sem í kringum þig voru.

Ef erfiðleikar komu upp þá gafst þú þig alla í að aðstoða og hugga. Þú varst besti vinur sem hægt var að hugsa sér, hlustaðir alltaf og gafst manni ráð.

Alltaf var stutt í húmorinn hjá þér og þú varst svo lífsglöð manneskja þrátt fyrir veikindi þín.

Þegar maður hitti þig fylltist maður vellíðan og öryggi.

Umhyggju þína var að sjá í svo mörgum myndum. Eins og þegar þú gafst okkur systkinunum litabók og öl þegar við vorum lítil og með hita. Þegar þið afi tókuð okkur með ykkur í hjólhýsið forðum. Eða þegar þú settist hjá okkur í vinahópi þegar við urðum eldri og spjallaðir við okkur um lífið og tilveruna. Aldrei leiddist manni nálægt þér.

Maður getur endalaust rifjað upp minningar um þig og jafnskjótt fyllist maður vellíðan og maður verður þakklátur fyrir að hafa átt frábæra ömmu eins og þig.

"Þótt ég sé látinn, harmið mig ekki með tárum. Hugsið ekki um dauðann með harmi og ótta. Ég er svo nærri, að hvert ykkar tár snertir mig og kvelur; en þegar þið hlæið og syngið með glöðum hug lyftist sál mín upp í mót til ljóssins. Verið glöð og þakklát fyrir allt sem lífið gefur og ég tek þátt í gleði ykkar yfir lífinu." (Höf. ók.)

Ólafía Helga, Guðbrandur og Helgi Freyr.