Hörður Zophaníasson Hann Hörður er dáinn. Fallinn frá langt fyrir aldur fram eftir stutt en erfið veikindi.

Þegar ég hitti Hörð fyrst hafði ég sjálfur ekki náð að fylla fyrsta tuginn í árum. Hann tók að venja komur sínar á heimilið til að hitta Solveigu systur mína. Upp frá því var Hörður einn af þeim sem ég gat ávallt leitað til. Ósjaldan leitaði ég til hans með ýmiskonar leiðsögn og ráð. Alltaf var Hörður tilbúinn að veita aðstoð. Þegar kom að því að kaupa fyrsta bílinn þá var Hörður mættur. Saman þræddum við bílasölur bæjarins og lásum smáauglýsingar upp til agna. Loks fannst rétti bíllinn og prúttað var um verð og gengið frá kaupunum, allt með hjálp Harðar.

Eitt af því sem ég minnist Harðar fyrir var frásagnargáfan og húmorinn. Hann var óþreytandi að segja skemmtilegar og hæfilega kryddaðar sögur af samferðamönnum sínum og var ótrúlega orðheppinn og uppátækjasamur. Eitt var það atvik sem við Hörður hlógum oft að og enginn þörf var að krydda. Það var þegar við Hörður vorum að gera við bíl sem var með bilaðar bremsur. Við bættum á hann brúsa af bremsuvökva, ekki einum, ekki tveimur, heldur þremur en alltaf vantaði meiri vökva en við fundum engan leka hvernig sem við skriðum undir bílinn og leituðum. Þegar svo bíllinn var settur í gang gaus upp þykkur og mikill hvítur reykur, líklega sá mesti sem sést hefur fyrr og síðar í Árbæjarhverfinu. Reykurinn huldi blokkina framan við bílinn og við rétt sáum grilla í húsmæður sem hlupu í dauðans ofboði út á svalir til að bjarga inn barnavögnum og þvotti. Við vorum hinir ánægðustu því reykurinn gaf okkur vísbendingu um hvar bilunin væri en húsmæðurnar á svölunum voru ekki eins hressar.

Hörður og Solveig eignuðust tvær dætur, Hrönn og Ernu, sem voru miklir augasteinar pabba síns. Hörður var ekki aðeins innilegur og góður faðir heldur var hann einnig mikill vinur og félagi dætra sinna.

Fáum mánuðum fyrir andlát sitt varð Hörður þeirrar gæfu aðnjótandi að bjarga mannslífi. Hann varð einn vitni að því er maður féll á milli skips og bryggju og náði að halda honum með annarri hendi og hringja á hjálp með hinni.

Hörður var alla tíð óspar á að hvetja fólk til dáða eða hugga og hughreysta ef á þurfti að halda. Fyrir fáum árum skildu leiðir Harðar og Solveigar systur minnar og þá hitti ég Hörð sjaldnar. En þegar ég hitti hann þá fylgdi alltaf með klapp á öxlina og alltaf hafði hann innilegan áhuga á hvað væri að frétta, hvernig ég hefði það og hvernig börnin döfnuðu. Og þegar sorgin knúði dyra hjá minni fjölskyldu fyrir tæpum tveimur árum þá brást það ekki að Hörður lét í sér heyra og eins og ávallt tilbúinn með huggunar- og hughreystingarorð. Við vonuðum öll að Hörður myndi hafa þetta af. Þegar líða tók á styrktust þær vonir en skyndilega kom bakslag og allt í einu var öllu lokið. Hörður fór allt of fljótt. Hann var hrifinn á brott frá dætrum sínum og fjölskyldu.

Elsku Hrönn og Erna, Solveig, Inga, Zophanías, Kristján, Viðar og aðrir aðstandendur. Megi minningin um góðan dreng veita ykkur huggun í þessari miklu sorg.

Þorsteinn Jóhannsson.