Júlíus B. Jónsson Í dag, þegar þessi orð eru skrifuð, er til moldar borinn kunnur og vinsæll borgari á Akureyri, Júlíus B. Jónsson, fyrrv. bankaútibússtóri. Hann var sonur þeirra sæmdarhjóna Maríu Hafliðadóttur ljósmóður og Jóns Guðmundssonar byggingameistara.

Við fráfall þessa hægláta heiðursmanns er enn höggvið stórt skarð í raðir hinna gömlu KA- félaga. En nú með skömmu millibili hafa þeir verið á brott kallaðir vinir hans og samherjar, Tómas Steingrímsson, Helgi Schiöth, Árni Ingimundarson og Eðvarð Sigurgeirsson, en þeir voru allir máttarstólpar í KA-starfinu, bæði sem keppendur og stjórnunarmenn fyrstu 15­20 ár félagsins. Júlíus lék bakvarðarstöðu í kappliðinu í allmörg ár og var einnig ritari í aðalstjórn KA árin 1935­1937. Hann var alla tíð mjög áhugasamur um gengi síns gamla félags, fylgdist með flestum kappleikjum þess og hvatti hina ungu óspart til dáða.

Ungur að árum tók hann einnig þátt í skátastarfinu hér í bæ og var hann í eldra skátafélaginu, Fálkum, undir stjórn Jóns Norðfjörð, en Gunnar Guðlaugsson annaðist yngri deildina. Þegar Fálkaskátar hófu byggingu fjallaskála síns á Súlumýrum árin 1932­1933 lagði Júlíus gjörva hönd á plóginn. Jón faðir hans studdi þetta áhugamál sonarins og lánaði hinum ungu eldhugum allt timbur og annað efni er þurfti í bygginguna. Júlíus lagði ætíð gott orð til skátastarfsins og taldi það um margt gott veganesti út í lífsbaráttuna. Einnig starfaði Júlíus síðar í allmörg ár innan vébanda Frímúrarareglunnar.

Eftir ýmsa tilfallandi vinnu á unglingsárunum, m.a. tvö síldarsumur á Siglufirði, hélt hann til Englands og nam þar verslunarfræði. Eftir heimkomuna vann hann skamma hríð í Sparisjóði Akureyrar uns hann hóf störf í Útvegsbanka Íslands. Það var upphafið að óvenju löngu og farsælu bankastarfi í meira en hálfa öld. Júlíus naut almennra vinsælda í starfi enda var hann þægilegur í öllu viðmóti og sanngjarn í viðskiptum.

Ég átti því láni að fagna að starfa með honum í meira en 30 ár. Þess tíma minnist ég með þakklæti og söknuði. Aldrei bar skugga á okkar samstarf öll þessi ár. Vinátta hans, hlýhugur og græskulaust gaman mun seint falla mér úr minni. Við Elsa nutum margra ánægjustunda á hinu notalega heimili hans og frú Sigríðar, þar sem myndir og bækur, fróðleikur og fegurð mótuðu svo mjög þeirra elskulega hreiður. Innan um hin ágætu málverk voru litlar sjávarmyndir eftir húsbóndann sjálfan, því hann var vissulega gæddur listrænum streng.

Megi nú að leiðarlokum hinn Almáttugi styrkja hana og stýra um ókunna stigu.

Frú Sigríði, börnum þeirra, Gísla og Herdísi Maríu, og fjölskyldum þeirra vottum við Elsa innilega samúð er þessi góði drengur hverfur okkur nú sjónum.

Haraldur Sigurðsson.