Sigríður Finnbogadóttir Okkar hinsta kveðjustund er runnin upp, amma mín. Margs er að minnast og margt ber að þakka. Ég man ekki hvað ég var gömul þegar ég kom fyrst til þín og varð eftir eina helgi eða svo en ég efast um að ég hafi verið meira en 4-5 ára. Ég var nefnilega fljót að finna hvað það var gott og gaman að vera hjá ömmu á Fossi. Smám saman lengdist dvalartíminn og á endanum fór ég að vera hjá þér sumarlangt, allt þar til ég var 16 ára. Það var nú ekki slæmt fyrir barn og síðar ungling að fá að vera hjá ömmu og Finnboga á Fossi og það er margar dýrmætar perlur að finna í fjársjóði minninganna.

Þú hafðir mjög gott lag á okkur krökkunum. Þú talaðir við okkur eins og fullorðið fólk og gerðir sjálfsagða og eðlilega kröfu um að við sinntum þeim verkum sem okkur var treyst fyrir en þú gafst okkur líka alltaf tíma til að leika okkur og að vera börn. Að halda jafnvægi þarna á milli er vandratað einstigi en þú fetaðir það snilldarlega. Þú hafðir mjög gaman af því að ræða málin og spá í hlutina. Við vorum nú ekki alltaf sammála, amma mín, og tókumst við stundum hressilega á í orðræðum okkar og má áreiðanlega segja að þar hafi eggið verið að reyna að kenna hænunni. En við skildum alltaf sáttar og höfðum við báðar eflaust lúmskt gaman af öllu saman.

Mér er það mjög minnisstætt þegar þú varst að koma hópnum þínum á fætur á morgnanna. Morgunmjaltirnar freistuðu ekki beinlínis svefnþungra unglinga en þú varst nú ekki að vandræðast yfir því heldur kleipst okkur í tærnar og málið var leyst, nema á sunnudögum, þá fengu allir að sofa út. Það var regla hjá þér sem ekki var brotin nema mikið lægi við. Skólaganga og menntun barnabarna þinna var þér mjög hugleikin og var þér mikið kappsmál að við öll lærðum eitthvað, næðum okkur í réttindi, eins og þú orðaðir það. Ég skildi ekki á sínum tíma áhuga þinn á þessum málum en þér tókst að koma þverum unglingnum í skilning um hvað málið snerist um. Ég gæti haldið endalaust áfram að tína upp úr minningakistunni sem helguð er þér en allt hefur sín takmörk.

Við áttum saman ógleymanlegan dag nú síðla sumars. Heilsu þinni var farið að hraka mjög en þú dreifst þig nú samt í ökuferð með mér, enda var aldrei á þér að heyra að þú ættir slæma daga. Við ókum austur á Mýrdalssand, horfðum til Kötlu og spáðum í spilin eins og í gamla daga. Hugur þinn var skýr og fór víða. Við keyrðum inn fyrir Reynisbrekku og horfðum inn á afréttinn og austur yfir sand og dásömuðum fegurð landsins þíns. Í heimleiðinni komum við hjá Símoni en þar voru samankomnir nokkrir afkomenda þinna og voru að verka fýl, verklagið hafa þeir numið af þér. Þú gladdist mjög yfir þessu og þú mátt vera stolt af ævistarfinu sem birtist þarna á táknrænan hátt. Við kvöddumst við leiðarlok og þú hafir orð á því að það væri óvíst að þú lifðir að sjá afréttinn svona fallegan aftur. Þú vissir, sem oft fyrr, hvað klukkan sló og mér fannst ég skynja að nú væri komið að ferðarlokum hjá þér. Við áttum þó eftir að hittast einu sinni enn, þá viku fyrir andlát þitt. Var þá mjög af þér dregið. En til marks um hörkuna og þrjóskuna í þér þá var búið að setja öryggismottu fyrir neðan rúmið þitt svo þú færir ekki fram úr án þess að hringja bjöllunni. Þér fannst það svo mikill óþarfi.

Amma mín, ég þakka þér fyrir allt það sem þú hefur gert fyrir mig. Minningin um góða ömmu lifir þó svo að við hittumst ekki oftar á þessu tilverustigi. Nú ert þú hjá Sigurlaugu og Sigurði Páli. Guð blessi minningu ykkar.

Dýrfinna.