Sigríður Finnbogadóttir Kæra amma.

Hve mörg er sú leið sem maðurinn ratar og margt er lagt á þann sem fer um langan veg. Mér finnst ekki vera langt um liðið síðan þú svæfðir mig í herberginu okkar á Fossi, fórst með bænirnar með mér og kenndir mér þær í leiðinni. Það var öruggt skjól sem þú veittir, alltaf var hægt að leita til þín þegar eitthvað bjátaði á. Það var ekki auðvelt hlutverk sem þú fékkst, að vera mér bæði amma, móðir og faðir. En það var eins og allt sem þú tókst þér fyrir hendur, leyst af hendi með metnaði og áhuga fyrir því að skila góðu verki. Þegar ég hugsa til baka til stundana sem við áttum á Fossi, með þér við öll störfin á bænum. Á veturna að sniglast kringum þig við mjaltirnar og verkin inni og úti, á vorin þegar lömbin fæddust var nóg að snúast í sveitinni við að koma öllu á sinn stað og gæta þess að allt skilaði sér á réttan stað. Fýlaverkuninni var beðið eftir allt árið, þar kenndir þú okkur afkomendum þínum réttu vinnubrögðin og í leiðinni áttum við með þér notalegar samverustundir. Ég man líka eftir því þegar við vorum í upptökunni á haustin, dag eftir dag og þegar við gengum upp brekkuna heim að bænum hvíldum við okkur á steini sem er á miðri leið og horfðum yfir Mýrdalinn og þú sagðir mér frá svo mörgu þar, steinninn er enn í brekkunni og á ásamt svo mörgu eftir að vekja upp gamlar góðar minningar um þig og það sem þú sagðir. Það er lærdómsríkt að hafa fengið að lifa og alast upp með kynslóð sem hafði ekki allt við höndina og varð að vera sjálfri sér nóg um svo marga hluti. Þú hafðir alltaf mikinn áhuga fyrir umhverfi þínu og gerðir þitt til að rækta í kring um bæinn á Fossi, þar eru kannski ekki bestu aðstæður til ræktunar en með vilja tókst þér að koma upp gróðri sem prýddi og gaf umhverfinu annað viðmót. Þegar ég fór frá Fossi til skóla og síðan vinnu var mikils virði að koma að Fossi og hitta ykkur þar. Þegar barnabarnabörnin fæddust fylgdist þú með og þau urðu aufúsugestir á þínu heimili og eftir að þú komst á dvalarheimilið í Vík var stutt fyrir þau að hlaupa til þín, það var þeim ekki síður mikils virði að fá að kynnast þér og að umgangast þig. Það er með miklum söknuði sem við kveðjum þig, það er sem akkeri hafi brotnað og um stund vitum við ekki hvert okkur rekur, það eitt vitum við eftir að hafa kynnst þér og fengið að vera með þér öll þessi ár, að við eigum mikinn sjóð fallegra minninga um þig sem verða okkur leiðarljós út í lífið. Þú ert nú komin á nýjan stað, þín bíða þar örugglega ný viðfangsefni og fólkið þitt sem er farið á undan þér. Við kveðjum þig með þökkum fyrir allt sem þú varst fyrir okkur og alla sem þér þótti vænt um.

Njörður Helgason og fjölskylda.