Hrefna Ragnheiður Magnúsdóttir Elsku amma mín.

Þessi dagur sem þú valdir til að kveðja þennan heim verður alltaf sérstakur í mínum huga. Það var mér mikils virði að fá að vera hjá þér síðustu klukkustundirnar og rifja upp allar yndislegu stundirnar sem við höfðum átt saman. Það eru mikil forréttindi og dýrmæt reynsla að fá að alast upp með ömmu sér við hlið. Þú varst alltaf til staðar og því var oft erfitt að hugsa til þess hvernig lífið yrði án þín

Alveg frá því ég man eftir mér varstu að fræða okkur systkinin, leiðbeina og hjálpa okkur um lífsins veg. Þú hafðir ákveðnar skoðanir á hlutunum en kenndir mér að hver maður er sérstakur á sinn hátt. Umhyggja þín fyrir öðrum og þá sérstaklega þegar einhver þurfti á hjálp að halda var mikil og stuðningur þinn var ómetanlegur þegar á reyndi. Þú vildir oft gleðja aðra og gerðir það á þinn hátt. Það er styrkur á lífsins braut að vera nægjusamur og að geta borið virðingu fyrir því sem maður á, og vona ég að mér lærist að meta það sem þú kenndir mér í þeim efnum.

Það var margt sem ég lærði á Hlíðarvegi 30, litla húsinu þínu. Ekki bara að lesa, prjóna og spila, heldur það hvað nálægðin við góðan vin, hlátur og skemmtilegar sögur geta gefið manni mikið. Allar stundirnar sem ég eyddi hjá þér, þegar þú sofnaðir með gleraugun á nefinu og hraust, sagðir mér sögur af fólki og stöðum eða sýndir mér myndir voru lærdómur fyrir mig. Þennan dýrmæta fróðleik geymi ég og segi mínum börnum frá þegar ég minnist þín. Það er svo margt sem mig langar til að segja þér og heyra þig segja frá en ég ætla að setja á blað fyrir þig ljóðið úr gestabókinni sem við gáfum þér um jólin.

Verndi þig englar, elskan mín,

þá augun fögru lykjast þín;

líði þeir kringum hvílu hljótt

á hvítum vængjum um miðja nótt.



Nei, nei, það varla óhætt er

englum að trúa fyrir þér;

engill ert þú og englum þá

of vel kann þig að lítast á.

(Steingr. Thorsteinsson) Þótt lífið verði tómlegt án þín munu minningarnar um allar góðu stundirnar með þér ávallt geymast í hjarta mínu. Góður Guð geymi þig á nýjum stað.

Þín

Hrefna.