Guðríður Erna Guðmundsdóttir Elsku Gurrý.

Ég á mjög erfitt með að skilja af hverju dauðann ber fyrirvaralaust að höndum hjá fólki í blóma lífsins.

Mig langar að kveðja þig með nokkrum minningum liðinna ára sem koma ljóslifandi fram á þessari erfiðu stundu og eru okkur dýrmætar og munu fylgja okkur í minningunni um þig. Ég hélt að þú myndir vinna þetta stríð, ég trúði því fram á síðustu mínútu að þú mundir vakna. Mér finnst trúin hafa brugðist mér í þetta sinn. Dauðinn er oft ansi óréttlátur. Hvernig getur maður réttlætt að hann þurfi að taka þig, kornunga, frá ungum dætrum þínum? Það er svo ansi margt sem þú áttir eftir að gera. Ég trúi því að þú fylgist með og leiðbeinir Írisi Hödd og Lenu Mist.

Við áttum margar góðar stundir saman. Ég man fyrst er við kynntumst fyrir u.þ.b. 15 árum, þá fannst mér þú alveg meiriháttar pæja og ég leit upp til þín og hugsaði með mér að einhvern tímann yrði svona gaman hjá mér og vinkonum mínum þegar við yrðum eldri. Minnisstæðar eru góðu stundirnar á loftinu á Eyrarvegi 9. Þá kom ég stundum og passaði Írisi Hödd á meðan þú og Hrefna Magg unnuð í Selfossbíó. Svo voru farnar nokkrar góðar ferðir á appelsínugulu Lödunni þinni, já hún stóð sko fyrir sínu. Man ég að eitt sinn fór ég að sækja þig og að mig minnir Rut niður í Þorlákshöfn, en þá voruð þið að koma af þjóðhátíð. Á heimleið var mikið fjör í Lödunni því ferðasögurnar voru alveg meiriháttar, svo margt hafði gerst. Síðan keyptir þú Subaru og ég man að það var heilmikið stökk frá Lödunni. Þú varst alltaf svo hlý, og góður vinur. Stjörnuspeki lýsir fólki sem er fætt 4. mars sem léttlyndu að eðlisfari og að það hafi mjög fágaða framkomu. Þessi stutta lýsing á vel við þig. Ég fæ þér seint þakkað hvað þú reyndist mér góð þegar ég gekk með Sesselju Sif. Komst hreint fram, dróst ekkert undan, ráðlagðir mér og hélst utan um mig. Þú varst svo góð við ömmu og afa í Múla, passaðir upp á búðina þeirra þegar þau voru erlendis og eftir að amma þín dó hefurðu reynst afa þínum alveg meiriháttar, þó svo að þú byggir í öðru landi, þá var alltaf svo mikið gott á milli ykkar og bið ég Guð að vaka yfir honum og hugga hann í þessari miklu sorg.

Einnig vil ég þakka þér hvað þú varst Ragnari Erni góð og hlý frænka. Hann á erfitt með að átta sig á þessu, jólin, gamlárskvöld og allt það án þín. Þó svo að við höfum ekki átt margar stundir síðustu ár voru tengslin alltaf góð. Um síðustu jól komstu til mín að skoða húsið mitt og nýfæddan son minn og áttum við góða stund saman. Hverjum hefði dottið í hug að það væru síðustu jólin okkar saman? Elsku Gurrý, ég þakka þér fyrir allar góðu stundirnar sem við áttum saman, þakka þér fyrir allt sem þú gerðir fyrir Ragnar Örn.

Elsku Íris Hödd, Lena Mist, Helge, Gústa, Biddi og aðrir aðstandendur. Megi góður Guð veita ykkur styrk í sorg ykkar og söknuði.

Við andlátsfregn þína,

allt stöðvast í tímans ranni.

og sorgin mig grípur,

en segja ég vil með sanni,

að ósk mín um bata þinn,

tjáð var í bænum mínum,

en guð vildi fá þig,

og hafa með englum sínum.



Þótt farin þú sért,

og horfin burt úr þessum heimi.

ég minningu þína

þá ávallt í hjarta mér geymi.

ástvini þína ég bið síðan

guð minn að styðja

og þerra burt tárin,

ég ætíð skal fyrir þeim biðja.

(Bryndís Jónsdóttir.) Hrönn Arnardóttir.