SÆMUNDUR JÓNSSON

Sæmundur Jónsson var fæddur 11. maí 1915. Hann lést á Sjúkrahúsi Siglufjarðar 21. september síðastliðinn. Foreldrar hans voru Jón Kristjánsson frá Lambanesi í Fljótum, f. 21.4. 1890, d. 26.6. 1969, og Stefanía Guðrún Stefánsdóttir frá Grafargerði í Siglufirði, f. 14.7. 1890, d. 1.5. 1936 af barnsförum. Seinni kona Jóns var Anna Sigmundsdóttir, f. 25.6. 1913, d. 4.9. 1999. Eftirlifandi systkini Sæmundar, börn Jóns og Stefaníu, eru Hulda, Sigurlaug og Björgvin, látin eru Bára, Ægir, Gústaf, Alda og Kristín. Eftirlifandi systkini Sæmundar, börn Jóns og Önnu, eru Erling og Edda, en látinn er Páll. Hinn 19. júlí 1937 kvæntist Sæmundur Jónínu Guðbjörgu Braun, f. 26.3. 1916, d. 17.1. 1994, og eignuðust þau sjö börn. Þau eru: 1) Stefanía Þórunn, f. 1937, d. 1998, gift Gunnari Gunnarssyni og eignuðust þau tvær dætur. 2) Jón Örn, f. 1938, d. 1995, kvæntur Þórunni Freyju Þorgeirsdóttur er lést 1977. Þau eignuðust fjögur börn. 3) Jórunn Gunnhildur, f. 1943, gift Jóni Ævari Ásgrímssyni og eiga þau eina dóttur. 4) Úlfar Helgi, f. 1945, í sambúð með Unu G. Einarsdóttur og eiga þau eina dóttur. 5) Anna Kristín, f. 1948, gift Ámunda F. Gunnarssyni og eiga þau þrjú börn. 6) Sigrún, f. 1951, d. sama ár. 7) Sigrún Björg, f. 1957, og á hún þrjár dætur. Sæmundur og Jónína bjuggu allan sinn búskap á Siglufirði. Sæmundur byrjaði ungur að standa vaktir við ljósastöðina á Siglufirði. Starfaði hann þar til 1937 er hann hóf störf hjá Síldarverksmiðju ríkisins, þar sem hann var rafvirki til 1953. Hann var síðan vélstjóri við hraðfrystihús SR á Siglufirði til ársloka 1962. Eftir það stundaði hann sjóinn á trillu. Sæmundur var þekktur völundur á Siglufirði og smíðaði tíu báta, m.a. sjö og tíu tonna trillur sem hann átti sjálfur og gerði út. Útför Sæmundar fer fram frá Siglufjarðarkirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 14.00.