Ólafía Kristín Kristjánsdóttir Fyrstu haustdagarnir hafa verið mildir og kyrrir en hjá Ollu vinkonu minni reyndust þeir strangir. Hún varð að lúta ofurefli krabbameins eftir áralanga baráttu og lést að morgni 25. sept. sl.

Vinátta hefur löngum verið mikilvæg á vegferð okkar um lífið. Traust vinátta, þar sem fylgist að virðing og væntumþykja er gott veganesti og kemur það gleggst í ljós þegar maður neyðist til að horfa fram í tómarúmið sem skapast er vinur hverfur á braut. Vináttan á sér oft undarlegar leiðir og ótrúlegustu atvik geta orðið til að mynda óvænta vináttu. Þannig var með vinskap okkar Ollu sem varði síðan um aldarfjórðungs skeið.

Saumaklúbbar eru einn vettvangur vináttu og einnig ljómandi gott tæki til að viðhalda henni, séu reglurnar virtar um að hittast og koma saman, burtséð frá því ætlunarverki sem nafn klúbbsins bendir til. Á sjötta áratugnum, þegar sjónvarpið hafði ekki enn haldið innreið sína í tómstundir manna og tölvur áttu sér ekki einu sinni hugtak, stofnuðu nokkrar ungar konur í Keflavík saumaklúbb. Ég var svo lánsöm að verða nokkru seinna boðin velkomin í þennan klúbb, sem enn er starfandi, og hefur félagsskapurinn því náð rúmlega fertugsaldri. Þannig höfum við upplifað saman giftingar, barneignir, húsbyggingar, uppeldisstörfin, já, lífsgleðina alla en einnig sorg og missi. Hópurinn hefur að mestu haldið sínum upphaflegu félögum en þegar ein af okkur fluttist búferlum til Grindavíkur árið 1975 þótti henni einmanalegar ferðirnar í saumaklúbbinn til Keflavíkur. Vandamálið var auðleyst og tilvalið að með henni kæmi ung kona úr Grindavík. Þarna var Olla komin inn í líf okkar, geislandi af lífsgleði og orku. Hún reyndist okkur alla tíð síðan traustur og góður félagi.

Olla, sem hét fullu nafni Ólafía Kristín Kristjánsdóttir, var yngst þriggja barna þeirra Margrétar Sigurðardóttur og Kristjáns Sigurðssonar í Grindavík og átti þannig stóran frændgarð í Grindavík, komin af stórfjölskyldum þaðan og af Skagaströnd. Olla stundaði hefðbundið skólanám á heimaslóðum. Ung að árum giftist hún Helga Kristinssyni, verkstjóra hjá Fiskanesi hf. í Grindavík. Helgi og Olla eignuðust tvær dætur og ólu einnig upp fósturson, náskyldan Ollu. Olla var mikil fjölskyldukona. Þau Helgi voru einstaklega samhent um velferð fjölskyldunnar og með einlægni sinni og hjartahlýrri umönnun batt Olla traust sambönd við börnin sín og aldraða foreldra sem hún annaðist í hárri elli. Oft hefur reynt á samheldni fjölskyldunnar, ekki síst þegar kær tengdasonur fórst með Eldhamri frá Grindavík árið 1991 og síðar þegar mikil barátta var háð fyrir lífi og heilsu lítillar dótturdóttur. Olla reyndist fjölskyldu sinni ætíð úrræðagóður og traustur bakhjarl sem með rósemi og festu vann sig út úr erfiðleikum.

Olla starfaði lengst af utan heimilis við fiskvinnslustörf, meðan heilsa og kraftar leyfðu. Hún starfaði með Kvenfélagi Grindavíkur um árabil. Hún var félagslynd og með glaðlyndi sínu og hjálpsemi aflaði hún sér vinsælda og virðingar samferðamanna.

Við Olla reyndumst eiga mörg sameiginleg áhugamál og svo var einnig um mennina okkar, sem störfuðu á sama vettvangi. Olla og Helgi urðu okkar bestu vinir, heimsóknirnar urðu margar milli heimilanna og er margs að minnast af samverustundum með þessum glöðu og góðu félögum, margar eftirminnilegar utanlandsferðir með saumaklúbbnum, veiðiferðir og heimsóknir í sumarbústað þeirra hjóna. Ég er þakklát fyrir þennan sjóð af góðum minningum en þakklátust er ég þó fyrir að hafa átt stuðning þeirra hjóna í sjúkdómsstríði og missi minna manna, eiginmanns, sonar og dóttursonar. Olla var þá alltaf til staðar, hjálpsöm og óþreytandi í uppörvun á erfiðum tímum. Sjálf hafði hún reynt stríðið við krabbameinið en fengið bata, sem því miður varði ekki lengur. Það var sársaukafullt að þurfa að horfa á Ollu ganga þessa erfiðu leið inn í veröld hins sjúka, hún sem alltaf hafði átt stuðning til að miðla til annarra. Síðustu vikurnar voru henni erfiðar og naut hún þá umhyggju eiginmanns og barna og ekki síst nöfnu sinnar og dótturdóttur, Ólafíu Helgu.

Olla vinkona mín hefur nú fengið lausn frá sjúkdómsstríði. Ég mun sakna hennar mikið, sakna þess að deila ekki lengur með henni gleðinni, sem hún var svo rík af, sakna símtalanna með glaðværa hjalinu hennar um lífið og tilveruna og sakna þess að upplifa með henni ókunnar slóðir. Hennar er saknað af okkur öllum félögunum í saumaklúbbnum.

Fyrir hönd fjölskyldu minnar og saumaklúbbsfélaga og sérstaklega Báru frænku hennar vil ég senda Helga, börnum og barnabörnum innilegar samúðarkveðjur. Við biðjum þeim guðs blessunar í sorg þeirra og söknuði. Guð blessi minningu Ollu.

Ásthildur Árnadóttir.