Stefán Þórarinn Gunnlaugsson Það er með djúpri sorg og sárum söknuði sem við kveðjum ástkæran bróður, mág og frænda, Stefán Þórarin Gunnlaugsson. Stebbi var einstakur maður, glaðvær, félagslyndur, hjálpsamur og umfram allt tryggur. Sem barn leit litla systir mjög upp til síns hávaxna og glæsilega bróður og fannst hún sem því næst snerta skýin þegar hann tók hana í faðminn. Strax sem barn hafði Stebbi þá tileinkað sér þá lífsgleði og hugulsemi sem átti eftir að fylgja honum fram í andlátið. Þegar Stebbi og Hulda tóku saman og stofnuðu fjölskyldu, skópu þau sér fallegt heimili þar sem kátur barnahópur þeirra hjóna lék sér áhyggjulaus undir verndarvæng ástríkra foreldra. Þar átti litla systir margar ánægjustundir, nú sem gift kona með eiginmanninn löngum fjarverandi við störf í Landhelgisgæslunni. Og mörgum árum síðar átti næsta kynslóð ekki síður ánægjulegar stundir hjá Stebba og Huldu þegar litla frænka, peðið í fjölskyldunni, brölti þar um á milli þess sem frændi og frænka æfðu krílið af mikilli þolinmæði í að bera fram stafinn r. Svona var Stebbi, þolinmóður, skilningsríkur og ávallt boðinn og búinn að rétta fram hjálparhönd hvar sem hans var þörf. Það var Stebba mikið áfall að missa Huldu sína langt um aldur fram en hann bar sorg sína af því æðruleysi sem alltaf einkenndi hann. Þrátt fyrir áfallið hélt hann áfram af krafti, var virkur í félagsstörfum og ferðaðist töluvert. Og aldrei fór Stebbi svo úr landi að hann færði ekki fjölskyldu litlu systur eitthvert smáræði frá útlandinu. T.d. gleymir litla frænka aldrei fallega skotapilsinu sem Stebbi frændi kom með frá Glasgow og gerði hana að fínustu stelpunni í skólanum. Eftir öll þessi ár er svo ótalmargs að minnast. Okkur setur hljóða við að rifja upp ótal stundir í félagsskap Stebba, einstaks manns sem var alls staðar hrókur alls fagnaðar jafnframt því að vera ávallt til staðar á erfiðari stundum.

Á sínum efri árum var Stebbi svo lánsamur að eignast góða og trygga vinkonu, Gyðu Eyjólfsdóttur. Stebbi og Gyða áttu margar góðar stundir og ferðuðust meðal annars töluvert, jafnt innan lands sem utan. Við kveðjum nú góðan dreng, þess fullviss að tilveran verður ekki sú sama án Stebba.

Gyða, Árni og Guðrún Gyða.