Sæmundur Jónsson Hann afi Sæmi er dáinn. Það er hlýjan haustmorgun 21. sept. síðastliðinn að minn elskulegi móðurafi kvaddi þennan heim, 84 ára að aldri. Á stundum sem þessum streyma fram minningar og af ótalmörgu er að taka.

Ég átti því láni að fagna á mínum yngri árum að fá að dvelja hjá ykkur ömmu Ninnu á Hólaveginum, nokkrar vikur á sumrin og stundum sumarlangt. Oft var erfitt hjá mömmu og það var yndislegt og mér mikils virði að vera hjá ykkur ömmu Ninnu, því þið áttuð alltaf til hlýju, mjúkan faðm og friðsæld.

Það er ekki ofsögum sagt að þú, afi minn, hafir verið þúsund þjala smiður, smíðaðir allt frá hinum minnstu hlutum upp í stóra báta og allt lék þetta í höndunum þínum. Eins var það með músíkina, þú spilaðir allt eftir eyranu hvort sem það var á fiðluna þína eða nikkuna, kunnir engar nótur en engu að síður komu ljúfir og fallegir tónar sem hlýjuðu manni um hjartaræturnar. Ég gleymi ekki þeirri stundu fyrir u.þ.b. fjórum árum þegar Þura dótturdóttir þín fermdist en þá ferðaðist þú alla leið frá Siglufirði að Hofi í Öræfum með fiðluna þína og spilaðir fyrir okkur. Sumum þætti það ekki merkilegt en það er það af því að þú varst orðinn 80 ára og nær blindur.

Ég veit að það var erfitt fyrir þig að missa sjónina en þá var amma hjá þér og studdi þig. En svo kom að því að amma fór yfir móðuna miklu og þá fannst mér þú missa móðinn, sem von er. Svo fór Nonni sonur þinn og nú í desember síðastliðinn fór mamma, elsta dóttir þín, og ég veit að þá fannst þér guð ekki réttlátur en þú sagðir við mig í símann: "Elsku Ninna mín, vertu sterk, ég veit að þetta er erfitt en við verðum að halda áfram." Það er erfitt að sjá á eftir fólkinu sínu á svona skömmum tíma og mörg tárin hafa fallið en eins og þú, afi, sagðir, þá verðum við að halda áfram. Og nú ert þú búinn að hitta ömmu Ninnu aftur og alla ástvinina sem farnir voru á undan og ykkur líður vel.

Elsku afi minn, ég og fjölskylda mín kveðjum þig í þetta sinn, þar til við sjáumst næst og hafðu þökk fyrir allt.

Þín

Jónína.