Hörður Zophaníasson Hann Hörður frændi minn er látinn. Það var faðir hans sem tilkynnti mér lát hans. Eðli lífsins er að afkvæmin lifi foreldrana. Þegar því jafnvægi er raskað er missirinn meiri, söknuðurinn sárari. En Drottinn ræður. Mig setti hljóða þó svo ég hafi vitað tvo síðustu mánuði að brugðið gæti til beggja vona. Góðar fréttir á stundum vöktu þó alltaf bjartsýni.

Á kveðjustundu hrannast minningarnar upp. Sex ára telpa, einbirni þá, eignaðist lítinn frænda, þegar Hörður fæddist. Ég vissi hvað var í vændum og hlakkaði mikið til. Foreldrar Harðar bjuggu þá á Suðurlandsbraut í sama húsi og amma Ingibjörg og afi Kristján. Þar fæddist enn fremur Kristján bróðir Harðar. Ég er þakklát fyrir það, að hafa verið í mikilli nálægð við þau öll í bernsku.

Hörður og Solla giftu sig ung að árum 1981. Saman eignuðust þau dæturnar Hrönn og Ernu, sem voru gimsteinar pabba síns. Hörður og Solla slitu samvistum fyrir nokkrum árum.

Hörður starfaði ýmislegt til sjós og lands. Hann lærði rafvirkjun og fékk meistararéttindi. Auk þess starfaði hann sem leigubílstjóri hjá Bæjarleiðum. Stoltust varð ég af frænda mínum, þegar hann fyrr á þessu ári bjargaði mannslífi. Sá atburður lýsir hans innra manni. Þannig var, að Hörður var að aka farþega niður á bryggju til skips. Maðurinn yfirgefur bifreiðina og var á leið um borð. Hörður beið átekta eftir því að maðurinn kæmist heill um borð. Það skipti þá engum togum, að maðurinn fellur milli skips og bryggju. Hörður brá skjótt við og stökk út úr bíl sínum, náði taki á manninum og tókst að halda honum með annarri hendi og jafnframt hringja úr farsíma með hinni eftir hjálp. Það lukkaðist að halda í manninn þar til hjálpin barst.

Guð á hæðum gaf þér ástríkt hjarta,

gæfu, lán og marga daga bjarta.

Nú er sál þín svifin heimi frá,

Sett til nýrra starfa Guði hjá.



Vertu sæll! Þig signi ljósið bjarta.

Sjálfur Guð þig leggi sér að hjarta.

Blómgist þar um eilífð andi þinn,

innilegi vinur minn.

(B.B.) Hörður var mjög greiðvikinn og alltaf boðinn og búinn að hjálpa öðrum. Ef hringt var til hans og hann beðinn um greiða játaði hann og sagði svo gjarnan hlæjandi: "Þú verður að eiga kaffi á könnunni." Það kom ekki til mála að maður fengi að borga greiðann. Þá gaf hann koss á kinn og hlýlegt faðmlag og greiðinn var uppgerður. Ekki verða vinarfundir né faðmlög fleiri frá frænda. Þess mun ég sárt sakna. En ég geymi dýrmæta minningu í hjarta mínu um kæran yndislegan frænda. Guð geymi hann um alla eilífð.

Ég sendi þér kæra kveðju,

nú komin er lífsins nótt.

Þig umvefji blessun og bænir,

Ég bið að þú sofir rótt.

Þó svíði sorg mitt hjarta

þá sælt er að vita af því

þú laus ert úr veikinda viðjum,

þín veröld er björt á ný.



Ég þakka þau ár sem ég átti

þá auðnu að hafa þig hér.

Og það er svo margs að minnast,

Svo margt sem um huga minn fer.

Þó þú sért horfinn úr heimi

Ég hitti þig ekki um hríð,

Þín minning er ljós sem lifir

og lýsir um ókomna tíð.

(Þórunn Sig.) Við fjölskylda mín vottum ykkur, elsku Hrönn, Erna, Zófi, Inga, Kristján, Viðar, Steinunn og fjölskyldur, okkar dýpstu samúð, megi Guð styrkja ykkur öll.

Guðrún Kristjánsdóttir.