HREFNA RAGNHEIÐUR MAGNÚSDÓTTIR

Systir mín Hrefna er látin. Hún andaðist 21. sepember sl. á Sjúkrahúsi Ísafjarðar þar sem hún hafði dvalið sem sjúklingur lengi. Þar hafði hún einnig starfað í mörg ár, síðast sem saumakona.

Margs er að minnast þegar maður kveður hinsta sinni konu í hárri elli. Konu sem maður hefur elskað og dáð frá ungdómsárum. Þessi systir mín var mér alla tíð fyrirmynd í dyggðum. Hef ég oft óskað þess um ævina, að vera gædd einhverjum af hennar miklu kostum. En það voru ekki auðgengin spor að feta í slóðina hennar Hrefnu Ragnheiðar.

Hrefna er fimmta systir mín sem ég kveð hinstu kveðju. Yngsta systirin er lifandi. Hún er yndi mitt og eftirlæti og ég vona að ég fái að njóta hennar í ellinni.

Ég man eftir Hrefnu ungri. Hún var falleg stúlka, skarpgreind og skemmtileg. Hún sagði vel frá öllu gríni og var mikil sögukona. Hrefna var mikill persónuleiki, andlega sterk, traust og trú. Oft var það svo á mínu bernskuheimili, þegar fjölskyldan átti í erfiðleikum, að Hrefna leysti vandann.

Ung giftist hún manni sem mér er ljúft að minnast, Guðmundi Benedikt Albertssyni frá Hesteyri í Sléttuhreppi. Þau voru falleg og samstillt hjón. Höfðingjar í öllu eðli sínu, gestrisin og góðir vinir vina sinna. Mér fannst alltaf að öll fjölskyldan ætti hann Gumma enda var hann okkur systrum sem besti bróðir. Ég mun aldrei gleyma þegar hann tók mig með sér heim til Hesteyrar eftir að ég hafði dvalið á Sjúkrahúsi Ísafjarðar í marga mánuði. Þar var ég hjá þeim hjónum í þrjá mánuði og komst til góðrar heilsu. Svövu systur mína tóku þau á heimili sitt og voru henni alla tíð sem bestu foreldrar. Þau ólu einnig upp dóttur Svövu, Judy, fram á fermingaraldur er hún gat flutt til móður sinnar.

Engin dóttir getur verið betri móður sinni en Hrefna var mömmu.

Föðursystur okkar, sem var einstæð, raunakona, tóku þau hjónin á heimili sitt og önnuðust til hinstu stundar.

Hér hef ég stiklað á stóru í lífi systur minnar. Alltof margt er ósagt. Ég vona að aðrir geri það. Ég hef þá trú, ef annað líf er til, að þar bíði vinir í varpa sem von er á gesti.

Guð blessi systur mína látna. Hafi hún þökk fyrir samveruna og öll hennar gæði.

Ég votta frænda mínum Magnúsi Reyni og fjölskyldu hans innilega samúð mína og sona minna.

Hinsta kveðja frá systur.

Blessi þig blóm jörð,

blessi þig útsær,

blessi þig heiður himinn,

elski þig alheimur,

eilífð þig geymi,

signi þig sjálfur guð.

(Jóh. úr Kötlum) Bergþóra Magnúsdóttir.