Magnús Már Björnsson Það fallegasta sem minningin um þig segir mér er það að þar átti ég góðan frænda. Þegar ég var að koma í heimsókn í Birkihlíð þá mætti mér lítill frændi minn með sinn fótbolta og þá tók ég þátt í þeim leik. Þá var minn litli vinur, bæði frændi og ekki síst vinur. Magnús var yndislegur og fallegur drengur og það sem prýddi Magga var hvað hann var góður við alla, bæði menn og málleysingja. En öll erum við Guðs börn Maggi minn.

Ég vil að lokum þakka þér, frændi minn, þær fallegu stundir sem við áttum saman þegar þú varst lítill. En nú ertu orðinn fullorðinn og kominn á nýjan stað þar sem þér verður falið annað hlutverk, og veit ég það að þú leysir það vel af hendi eins og allt sem þú tókst þér fyrir hendur. Guð blessi minningu þína elsku frændi minn.

Far þú í friði,

friður Guðs þig blessi,

hafðu þökk fyrir allt og allt.

(V. Briem.) Þinn frændi

Ómar.