Guðrún Aðalsteinsdóttir Það eru sjö ár síðan við hjónin kynntumst Guðrúnu Aðalsteinsdóttur fyrst, eða um það leyti er hilla fór undir að hún yrði tengdamóðir sonar okkar. Enda þótt við byggjum á sitt hvorum enda landsins, áttum við eftir að hitta hana oft og eiga með henni góðar samverustundir. Við komumst fljótt að því að Guðrún var óvenju hjartahlý, greind og fróð kona sem fylgdist vel með og hafði ríka kímni- og frásagnargáfu.

Við minnumst hennar á brúðkaupsdegi barna okkar þar sem hún stóð fyrir glæsilegri veislu og talaði fallega til brúðhjónanna. Við minnumst hve vel hún tók á móti okkur í þau skipti sem við lögðum leið okkar til Egilsstaða og við minnumst hennar hér fyrir sunnan, nú síðast í ágúst, þegar við áttum góðar stundir saman í Garðabænum. Sérstaklega er okkur þó minnisstæð ferð sem við fórum með Guðrúnu, sumarið 1997, upp á Jökuldal og á æskustöðvar hennar í Hrafnkelsdal. Á þeirri leið þekkti hún auðvitað allt og alla og sagði afar skemmtilega frá. Að lokum var farið upp í óbyggðir, þar sem við skoðuðum hin tilkomumiklu Dimmugljúfur.

Guðrún lét sér mjög annt um börn sín, tengdabörn og barnabörn. Hún var ósérhlífin og alltaf boðin og búin til hjálpar ef á þurfti að halda. Þegar sameiginlegt barnabarn okkar veiktist alvarlega í Kaupmannahöfn dvaldi hún hjá fjölskyldunni þar ytra í mánaðartíma og veitti henni mikla aðstoð sem kom sér mjög vel.

Það hafa margir misst mikið við andlát Guðrúnar Aðalsteinsdóttur en nú er komið að leiðarlokum og við þökkum góða og ánægjulega viðkynningu. Við sendum öllum aðstandendum innilegustu samúðarkveðjur.

Margrét og Sigurður H. Richter.