AÐ UNDANFÖRNU hefur verið í gangi vinna á vegum sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu undir yfirskriftinni: Á hverju á höfuðborgarsvæðið að lifa á 21. öldinni? Nú fjallar "Íslenskur iðnaður" um þetta í leiðara nýjasta heftisins, sem komið er út.

Í LEIÐARANUM segir: "Hópurinn setti fram nokkur markmið og tillögur, þar á meðal: 1. Að sveitarfélögin samræmi áætlanir sínar um uppbyggingu atvinnusvæða og að tryggt verði fjölbreytt framboð atvinnulóða í sveitarfélögunum sem hæfa mismunandi starfsemi. Sveitarfélögin hafa oft verið svifasein að mæta kröfum markaðarins um lóðir. Þegar uppsveifla verður í samfélaginu og eftirspurn eftir lóðum eykst verður mikill lóðaskortur sem leiðir aftur til verðsprenginga á lóðum og húsnæði. Lagt er til að bæta úr þessu ástandi með því að koma á laggirnar samráðsnefnd sveitarfélaga og atvinnulífs um skipulag atvinnusvæða. Henni er ætlað að tryggja að sveitarfélögin þekki þarfir atvinnulífsins á hverjum tíma og að atvinnulífið viti um og þekki áætlanir sveitarfélaganna. Jákvæð reynsla er af slíku samstarfi t.d. í Danmörku. Eitt af hlutverkum slíkrar nefndar er reglubundin athugun á þörf atvinnulífsins fyrir athafnasvæði og áætlun um framboð atvinnulóða í hverju sveitarfélagi. 2. Að stuðlað verði að meiri sérhæfingu atvinnusvæða en tíðkast hefur og stöðugleiki í skipulagi verði tryggður. Það er eðlilegt að skipulag byggðar þróist og breytist í tímans rás. Allmörg dæmi eru um að iðnaðarhverfi hafi breyst í verslunar- og þjónustusvæði með aukinni útþenslu byggðarinnar. Nauðsynlegt er að milda áhrif slíkra breytinga með markvissari stýringu á landnotkun og ígrunda þarf betur en áður staðaval iðnaðarhverfa með tilliti til þessarar þróunar. Mjög mikilvægt er að skipulag einstakra svæða standi óbreytt sem lengst og ekki sé sífellt verið að gera breytingar á því. Fjárfestar þurfa að geta treyst því að ekki verði grundvallarbreytingar á skipulagi sem geta kippt grundvellinum undan rekstrinum. Þegar flytja þarf fyrirtæki vegna breytinga á skipulagi verður að gefa þeim góðan frest til undirbúnings og uppbyggingar á nýju svæði. Gerð er tillaga um að sveitarfélögin komi sér saman um grófa flokkun atvinnusvæða í svæðisskipulaginu og staðsetningu þeirra og settar verði ákveðnar reglur sem tryggi fyrirtækjum góðan aðlögunartíma að breyttu skipulagi. 3. Að tryggja fyrirtækjum sveigjanleika til uppbyggingar og þróunar. Kröfur fyrirtækja til húsnæðis og umhverfis breytast stöðugt. Meiri kröfur eru gerðar til umhverfisins þar sem ímynd fyrirtækjanna skiptir æ meira máli. Samþjöppun fyrirtækja og sameining kallar á stærri lóðir undir skrifstofuhúsnæði. Fjármála- og hugbúnaðarfyrirtæki gera t.d. nýjar kröfur til innra skipulags, þau vilja stór opin rými en ekki hefðbundnar skrifstofur. Þetta kallar á nýtt húsnæði fremur en endurnýtingu eldra húsnæðis. 4. Að stuðla að aukinni endurnýtingu svæða. Þéttbýli á Íslandi er varla nema nokkurra áratuga gamalt og því hefur ekki enn reynt á endurskipulagningu stærri svæða innan eldri byggðar. Endurnýting svæða er orðin mjög aðkallandi vegna umhverfis- og hagkvæmnissjónarmiða og geta þau vegið þyngra en sjónarmið um verndun eldri byggðar. 5. Að orkufrekum og grófari framleiðsluiðnaði ásamt endurvinnsluiðnaði verði fundinn staður á höfuðborgarsvæðinu eða í nágrenni þess í samstarfi við nágrannabyggðarlögin. Stöðugt er verið að þrengja að þessum fyrirtækjum því öll sveitarfélögin virðast vilja ýta þeim sem lengst í burtu. Breytt almenningsálit í umhverfismálum og auknar alþjóðlegar kröfur í þeim efnum hafa einnig mikil áhrif í þessu sambandi. Af þessum sökum er mikilvægt að tekið verði sérstaklega á staðavali þessarar starfsemi í svæðisskipulaginu. Gerð verði úttekt á staðavali fyrir þennan iðnað á höfuðborgarsvæðinu og tekin ákvörðun um staðsetningu slíkra svæða í svæðisskipulaginu.

Vonandi láta sveitarfélögin ekki hér við sitja heldur hrinda þessum tillögum í framkvæmd sem fyrst. Pólitískur hrepparígur má ekki koma í veg fyrir það. Á þessu er brýn þörf og ekki eftir neinu að bíða."