JÓLATÓNLEIKAR Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands verða haldnir í Akureyrarkirkju annað kvöld, laugardagskvöldið 11. desember, kl. 20.30 og í Dalvíkurkirkju á sunnudag, 12. desember kl. 16.
JÓLATÓNLEIKAR Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands verða haldnir í Akureyrarkirkju annað kvöld, laugardagskvöldið 11. desember, kl. 20.30 og í Dalvíkurkirkju á sunnudag, 12. desember kl. 16. Þetta eru fyrstu jólatónleikarnir í sjö ára sögu hljómsveitarinnar, en forsvarsmenn hennar vona að þeir eigi eftir að vinna sér fastan sess í jólaundirbúningi Norðlendinga er fram líða stundir.

Stjórnandi á tónleikunum er Guðmundur Óli Gunnarsson. Í hljómsveitinni verða um 30 hljóðfæraleikarar og þá taka tveir barnakórar þátt, Barna- og unglingakór Akureyrarkirkju og Húsabakkakórinn Góðir hálsar, alls um 40 börn og unglingar á aldrinum 10 til 16 ára.

Kemur fjölskyldunni í jólaskap

Guðmundur Óli sagði efnisskrána tengjast jólum og hún ætti að höfða til allrar fjölskyldunnar. "Þetta er mjög jólaleg dagskrá og við vonum að hún komi allri fjölskyldunni í jólaskap. Þetta eru verk sem henta vel á aðventunni þegar tilhlökkunin og stemmningin er alls ráðandi," sagði Guðmundur Óli.

Fyrst verða fluttir fjórir þættir úr Hnotubrjótnum eftir Tjækofskí, ballettónlist samin við jólaævintýri þar sem segir frá hnotubrjót sem er piltungur í álögum. Þá verður flutt verkið Sleðaferðin eftir Frederick Delius, en það var upphaflega píanóverk samið fyrir jólaboð þar sem Grieg var einn af gestunum. Delius útsetti verkið síðar sjálfur fyrir hljómsveit og gerði það enn jólalegra með sleðabjöllum og flautu og fleiru tilheyrandi. "Þegar maður heyrir þetta lag er auðvelt að ímynda sér að maður sitji undir bjarnarfeldi í hestasleða á leið í kirkju á jólanótt," sagði Guðmundur Óli um verkið.

Hugljúf saga um snjókarl

Barnakórarnir tveir sem Sinfóníuhljómsveit Norðurlands hefur fengið til liðs við sig flytja sex jólalög með hljómsveitinni, allt þekkt lög sem verið hafa í kórútsetningum en Guðmundur Óli hefur gert hljómsveitarútsetningu á. Lögin sem kórinn syngur eru: Hátíð fer að höndum ein, Á jólunum er gleði og gaman, Þá nýfæddur Jesú, Skreytum hús með greinum grænum, Það á að gefa börnum brauð og loks Jól.

Síðast á efnisskránni er jólaævintýrið Snjókarlinn við tónlist eftir Howard Blake, en það hefur verið gefið út á myndbandi. Í sögunni segir frá dreng og snjókarlinum hans sem vaknar til lífsins þegar drengurinn vitjar hans að nóttu. Snjókarlinn fær drenginn með sér í ferðalag og saman hitta þeir jólasveininn. "Þetta er afskaplega hugljúf saga. Sigurður Karlsson leikari er sögumaður, en Baldur Hjörleifsson, 11 ára strákur úr Svarfaðardal, verður einsöngvari," sagði Guðmundur Óli.

Frábærar undirtektir

Dalvíkurbyggð og Sparisjóður Svarfdæla kosta tónleikana á Dalvík og sagði Guðmundur Óli að það hefði gert hljómsveitinni kleift að efna til tónleikanna utan Akureyrar. "Þetta eru frábærar undirtektir og við vonum að þetta sé aðeins upphafið að meira samstarfi milli hljómsveitarinnar og nágrannabyggða Akureyrar. Það hefur á síðustu misserum orðið hugarfarsbreyting á landsbyggðinni að því er menningu varðar, fólk er að átta sig á gildi starfsemi af þessu tagi," sagði Guðmundur Óli.