ÞAÐ verður líf og fjör í göngugötunni í dag, föstudag, og um helgina, í tengslum við Jólabæinn Akureyri. Leikskólabörn verða fyrirferðarmikil í miðbænum í dag en þau ætla að koma í heimsókn í sögutjaldið í göngugötunni.

ÞAÐ verður líf og fjör í göngugötunni í dag, föstudag, og um helgina, í tengslum við Jólabæinn Akureyri. Leikskólabörn verða fyrirferðarmikil í miðbænum í dag en þau ætla að koma í heimsókn í sögutjaldið í göngugötunni. Þá heilsar jólasveinn upp á börnin milli kl. 15.30 og 17.30.

Fjöllistahópurinn Circus Atlantis sýnir listir sínar kl. 15.30 í dag og á sama tíma syngja félagar úr kór Menntaskólans á Akureyri nokkur jólalög. Leikhús barnanna verður í sögutjaldinu og börnin geta mætt og leikið með Kolrössu og Ketilríði kl. 16.30. Þá sýnir Ballettskólinn valda kafla úr Hnotubrjótnum í Bókvali kl. 17.00.

Á morgun laugardag verður mikið um að vera í miðbænum frá kl. 14 og fram eftir degi. Jólasveinar heilsa upp á börnin, Leikfélag Akureyrar sýnir valda kafla úr leikritinu Blessuð jólin og þá verða afhent verðlaun í jólakortasamkeppni LA. Leikhús barnanna verður opið í sögutjaldinu, Félagar úr kór Menntaskólans á Akureyri og Karlakórinn Geysir taka lagið, Skralli trúður verður á ferð og flugi og fjöllistahópurinn Circus Atlantis sýnir listir sínar.

Á sunnudag kl. 15 verða jólasveinar á svölunum við Bókval. Um áraraðir komu jólasveinar í heimsókn í miðbæinn og sungu jólalög á svölum Vöruhúss KEA, þar sem nú er verslun Bókvals. Nú hefur þessi jólasiður bæjarbúa verið endurvakinn. Einnig munu trúðar og ýmsar "fígúrur" dreifa karamellum frá Nóa-Síríusi meðan jólasveinarnir heilsa upp á börnin.