STAÐA samningaviðræðna við ráðuneyti heilbrigðis- og félagsmála vegna reynsluverkefna Akureyrarbæjar var kynnt á fundi bæjarráðs í gær, svo og bókun reynsluverkefnanefndar, sem bæjarráð samþykkti. Þar kemur m.a.

STAÐA samningaviðræðna við ráðuneyti heilbrigðis- og félagsmála vegna reynsluverkefna Akureyrarbæjar var kynnt á fundi bæjarráðs í gær, svo og bókun reynsluverkefnanefndar, sem bæjarráð samþykkti. Þar kemur m.a. fram að nefndin telur varðandi endurnýjun samnings við félagsmálaráðuneytið að enn séu ekki komnar fram forsendur sem réttlæti að Akureyrarbær haldi áfram því verkefni sem snýr að málefnum fatlaðra.

Fram hefur komið í umræðum um þetta mál innan bæjarkerfisins, að ef ekki náist samkomulag við félagsmálaráðuneytið, verði þessum verkefnum skilað aftur til ríkisvaldsins. Samningar vegna reynsluverkefnanna renna út um næstu áramót.

Reynsluverkefnanefnd telur að til að af samningi við félagsmálaráðuneytið geti orðið þurfi fjárveiting ársins 2000 að vera í samræmi við áætlun Akureyrarbæjar og samkomulag að nást vegna hallareksturs á yfirstandandi ári. Kristján Þór Júlíusson bæjarstjóri sagði það mat bæjaryfirvalda að félagsmálaráðuneytið hefði greitt of lítið fyrir þau verkefni sem snúa að málefnum fatlaðra.

Viljum halda þessum verkefnum

"Við bæjarfulltrúar hér á Akureyri höfum ekkert umboð frá bæjarbúum til þess að borga með þessum verkefnum. Vilji okkar stendur hins vegar til þess að halda verkefnunum áfram og við erum tilbúnir að teygja okkur eins langt og mögulegt er til þess að svo geti orðið," sagði Kristján Þór.

Hins vegar leggur reynsluverkefnanefnd til að gengið verði til samninga við heilbrigðisráðuneytið um málefni aldraðra og Heilsugæslustöðina enda gangi þær fjárveitingar eftir sem kynntar hafa verið af ráðuneytinu. Það sé jafnframt skilyrði að ráðuneytið komi inn í viðræður sem er ólokið um framgangskerfi kjarasamninga á Heilsugæslustöðinni og ábyrgist viðbótarfjármagn vegna þeirra.