[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
"ÞEGAR jörðin hættir að anda á meðan nóttin hverfur. Þá er óskastund þar til hún andar frá sér nýjum degi," segir Skógardísin. Svo segir í bók eftir Oddbjörgu Sigfúsdóttur húsmóður sem býr í Fellabæ á Héraði.

"ÞEGAR jörðin hættir að anda á meðan nóttin hverfur. Þá er óskastund þar til hún andar frá sér nýjum degi," segir Skógardísin. Svo segir í bók eftir Oddbjörgu Sigfúsdóttur húsmóður sem býr í Fellabæ á Héraði. Hún er fædd á Krossi í Fellum, en það var gamall torfbær. Oddbjörg hefur verið skyggn frá því áður en hún man eftir sér og hefur séð ýmsa vætti á Austurlandi. En hvað með tröll?

"Ég gisti suður með fjörðum fyrir tveimur árum, á sveitabæ undir háu fjalli en þar eru miklir klettar fyrir ofan túnið. Mig dreymir um nóttina. Ég heyri ógurlega skruðinga og jörðin skalf og grjót valt. Ég lít út um gluggann og sé að skessa er komin út úr hamrinum fyrir ofan. Hún er gríðarlega stór, e.t.v. á stærð við fíl, og var hún bundin við ökkla og úlnliði. Það teygðist á böndunum og brakaði í þeim. Hún var komin fyrir framan húsið og var að reyna að komast í sjóinn. Mér þótti ég vera hrædd og einhver fyrir aftan mig segir þá: "Hún er að nota orkuna þína." Ég segi: "Þetta er stórhættulegt. Það verður að koma henni í klettinn aftur." Þá finnst mér ég sjá vætti setja hana inn þar aftur og loka. Um morguninn var mér sagt að tröllahjón hefðu búið hér áður. Þau voru oft að veiða út á firðinum. Eitt sinn þegar kerlingin hélt heim var karlinn seinn fyrir og stendur nú þar sem steindrangur."

Bók Oddbjargar heitir Vættafundur á Eyjabökkum og inniheldur skilaboð frá vættum til manna: "Þið verðið að hætta að skemma náttúruna." "Ég get ekki sagt annað en það að bókin er skilaboð frá vættum. Það er vont að gleyma að skila því sem maður er beðinn um að skila." Hún var rituð með ósjálfráðri skrift.

Í bók Oddbjargar kemur fram að vættirnir hafa áhyggjur af gangi mála á Austurlandi, og efna því til fundar á Eyjabökkum.

"Það fer ekki framhjá neinum þegar vættir vilja gera vart við sig," segir Oddbjörg og svo var einnig þegar bók hennar var kynnt á Egilsstöðum fyrir viku. Áður en Oddbjörg kom á kynninguna þaut kaffikanna út af tilteknu borði án skýringar og mölvaðist á gólfinu, og á meðan upplestri stóð brotnaði stóll við þetta sama borð og maður datt í gólfið.

"Vættirnir eru allt önnur orka en sú sem við þekkjum," segir Oddbjörg.

Vættir á Eyjabökkum

Vættirnir á Austurlandi eru órólegir. Drekinn, landvættur fjórðungsins, boðar til fundar á Eyjabökkum og Álfakóngurinn á Borgarfirði eystra heldur ræðu og hefur Snædrottninguna í Snæfelli sér til fulltingis. Vættafylkingin á Eyjabökkum er fjölskrúðug; púkar, dvergar, huldufólk, fylgjur, skrímsl, tröll, búálfar og allskonar aðrar skepnur. Hnífill litli huldudrengur fær svo það þýðingarmikla verkefni að flytja mönnum skilaboðin með hjálp brottfluttrar norskrar skógardísar sem jafnframt segir Oddbjörgu söguna. Huldudrengnum er ekki tekið sérlega vel í mannabyggðum og er ekki trúað og því vísað á dyr í fyrstu heimsókninni sinni. "Ég býst ekki við að bókinni minni verði betur tekið en honum," segir Oddbjörg. Hún hefur þó bókina til sölu í Fellabæ, Egilsstöðum og Reykjavík.

Sjálf efast hún ekki um vættina og rifjar upp sögur af völvunni á Hólmahálsi á Reyðarfirði. "Þegar Tyrkir stóðu í ránum sínum á Íslandi og fóru um firðina skall á þoka yfir Reyðarfjörð svo þeir sáu hann ekki og fóru framhjá. Eins flaug á tind, handan við Hólmaháls, þýsk sprengjuvél í þoku áður en hún gat valdið tjóni," segir hún.

Og nú er aðeins eftir að sjá hvort einhver trúi Hnífli litla huldudreng og hvort einhver kann enn listina að nema speki skógardísarinnar.