HUGSANLEG sameining í bankakerfinu var þingmönnum ofarlega í huga í gær en þá fór fram önnur umræða á Alþingi um frumvarp ríkisstjórnarinnar sem miðar að því að leyfa sölu 15% hlutafjár ríkisins í Landsbanka og Búnaðarbanka. Stjórnarandstæðingar lýstu m.

HUGSANLEG sameining í bankakerfinu var þingmönnum ofarlega í huga í gær en þá fór fram önnur umræða á Alþingi um frumvarp ríkisstjórnarinnar sem miðar að því að leyfa sölu 15% hlutafjár ríkisins í Landsbanka og Búnaðarbanka. Stjórnarandstæðingar lýstu m.a. eftir heildarstefnu í bankamálum og gagnrýndu hversu mjög ætti að hraða málinu í gegn um þingið.

Vilhjálmur Egilsson, formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis, mælti fyrir áliti meirihluta nefndarinnar í upphafi umræðunnar í gær og sagði afstöðu meirihlutans þá að samþykkja ætti frumvarpið óbreytt.

Hann rifjaði upp 9. gr. reglna Verðbréfaþings Íslands um skráningu verðbréfa í þinginu sem kveður á um að dreifing eignarhalds hlutabréfaflokks, sem sótt er um skráningu á, skuli vera þannig að 25% hlutabréfanna og atkvæðisréttar séu í eigu almennra fjárfesta. Veitt hefði verið undanþága þegar hlutabréf í Landsbanka og Búnaðarbanka voru skráð á aðallista VÞÍ með hliðsjón af yfirlýsingu viðskiptaráðherra um að dreifing hlutafjár yrði í samræmi við reglur VÞÍ eigi síðar en 1. júní 2000.

Vilhjálmur sagði að helsta ákvörðunarefnið, sem nú væri staðið frammi fyrir, væri hvort fara ætti þá leið að uppfylla kröfur Verðbréfaþingsins með því að bjóða meira út, þ.e. að bæta við hlutafé í bönkunum þannig að hægt sé að uppfylla kröfur Verðbréfaþingsins, eða hvort taka ætti þá stefnubreytingu að selja úr hlut ríkissjóðs.

Samfylking ekki andsnúin sölunni sem slíkri

"Meirihluti nefndarinnar telur að sú ákvörðun sé skynsamleg að selja frekar úr hlut ríkissjóðs frekar en að bjóða út nýtt hlutafé," sagði Vilhjálmur. Sagði hann að ef sú leið væri farin að uppfylla kröfur Verðbréfaþingsins með því að bjóða út nýtt hlutafé yrði það væntanlega þensluhvetjandi, enda myndu bankarnir þá líklega báðir leitast við að stækka sína efnahagsreikninga og auka þá sín útlán.

"Það er því tvímælalaust betra í því árferði sem við búum nú við, þeirri miklu eftirspurn sem er í hagkerfinu, að selja frekar úr hlut ríkissjóðs til þess að ná þessu markmiði að bankarnir uppfylli kröfur Verðbréfaþings um skráningu þar," sagði Vilhjálmur.

Jóhanna Sigurðardóttir, þingmaður Samfylkingar, kvartaði yfir því í upphafi máls síns hversu mjög ætti að hraða þessu máli í gegnum þingið. Fram kom þó í máli hennar að hún teldi það skynsamlegri kost að selja nú 15% af hlutafé ríkisins fremur en bjóða út nýtt hlutafé. Sagði hún jafnframt að þingmenn Samfylkingar væru ekki andsnúnir þeirri meginhugmynd að selja 15% hlutafjár í ríkisbönkunum þótt hún gagnrýndi harðlega vinnubrögð ríkisstjórnarinnar í málinu.

Þær Jóhanna og Margrét Frímannsdóttir, þingmaður Samfylkingar, leituðu báðar eftir svörum á því hvernig ríkið hygðist ráðstafa söluandvirði hlutabréfasölunnar. Velti Jóhanna því einnig fyrir sér hvort sameining Íslandsbanka og Landsbanka, sem haldið hefur verið á lofti, myndi í raun skila lækkun þjónustugjalda. Benti hún á að Íslandsbanki, sem væri einkarekinn, hefði hæstu þjónustugjöldin.

Margrét Frímannsdóttir lýsti hins vegar þeirri skoðun sinni að breyting á rekstrarformi banka tryggði ekki endilega að hann yrði betur rekinn. Meira máli skipti fagmennska þegar ráðnir væru stjórnendur í banka. Loks velti Lúðvík Bergvinsson því fyrir sér hvort viðskiptaráðherra teldi að sameining banka myndi þurfa að koma til kasta Alþingis ef af henni yrði.

Vinstrigrænir segja einkavæðingu banka á döfinni

Ögmundur Jónasson, þingmaður Vinstrigrænna, gagnrýndi í ræðu sinni harðlega þann asa sem væri á þessu máli. Sagði hann í raun ekkert liggja á, ekki þyrfti að vera búið að uppfylla skilyrði Verðbréfaþings fyrr en 1. júní árið 2000.

Ögmundur sagði litlar upplýsingar hafa borist frá stjórnvöldum um hvað væri framundan í bankamálum. Ekki fengju þingmenn mikinn tíma til að velta þeim málum fyrir sér, og ræða kostina, því helst vildi viðskiptaráðherra koma máli þessu í gegn fyrir helgi. Þessi vinnubrögð sagði Ögmundur ekki boðleg.

Ögmundur sakaði ríkisstjórnina um að hafa viðhaft blekkingar, fullyrt hefði verið við hlutafélagavæðingu bankanna að ekki ætti að selja hlut úr þeim á næstu fjórum árum. Þetta loforð væri nú verið að svíkja. Sagði Ögmundur augljóst að þessi ríkisstjórn vildi flýta sér að einkavæða bankana og undir þau orð tók Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstrigrænna.

Guðjón A. Kristjánsson, þingmaður Frjálslynda flokksins, lýsti hins vegar eftir reglum um dreifða eignaraðild í fjármálastofnunum. Rakti hann ennfremur efni þingsályktunartillögu sem hann og Gunnar Ingi Gunnarsson, sem nú situr á þingi fyrir Frjálslynda, hafa lagt fram um að könnuð verði hagkvæmni þess að sameina ríkisbanka áður en til sölu þeirra kemur.

Söluandvirðinu ekki eytt í fjárfestingar

Finnur Ingólfsson viðskiptaráðherra lagði m.a. í ræðu sinni áherslu á að alls ekki ætti að ráðstafa söluandvirði á 15% hlutafé ríkisins í Landsbanka og Búnaðarbanka þannig að það yki á þenslu. Til að tryggja þetta mætti t.a.m. frysta peningana, þ.e. leggja þá t.d. inn í Seðlabankann, geyma þar og spara. Hins vegar mætti einnig draga úr þenslu með því að greiða sérstaklega niður skuldir. Ekki ætti hins vegar að eyða peningunum í fjárfestingar að svo stöddu.

Um það hvers vegna selja ætti hlutabréf í Landsbanka og Búnaðarbanka á lægra verði en nú gilti á markaði í því útboði sem í hönd fer sagði Finnur að horft væri á þetta sem langtímafjárfestingu í sparnaði. "Og með því að fara niður fyrir markaðsgengið þá teljum við að við séum að hvetja frekar til þess að almenningur taki þátt í þessari áskrift, þessu hlutafjárútboði, og þannig í raun og veru að stofna til fjöldaþátttöku almennings í landinu," sagði Finnur.

"Það er meginástæðan fyrir því að við veljum lægra útboðsgengi heldur en meðaltalsgengið hefur verið á undanförnum mánuði."

Viðskiptaráðherra sagði ólíku saman að jafna, hvað varðaði skilgreiningar á skyldleikatengslum við útboðslýsingu, sölu ríkisins á 51% hlut sínum í Fjárfestingarbanka atvinnulífins með tilboðssölu. Hér væri einungis verið að selja 5%, eða einn þriðja, í tilboðssölu.

"Og þegar menn horfa á þær reglur sem eru í þessari útboðslýsingu þá gerum við ráð fyrir því að enginn einn aðili geti orðið með meira heldur en 1%, þ.e.a.s. í tilboðinu sem slíku. Og þar af leiðandi er það nú mitt mat að menn muni nú ekki fara í miklar tilraunir til þess að ná ráðandi hlut, og reyndar útilokað, með því að nýta sér skyldleikatengslin í þessum efnum."

Sameining banka stuðli fyrst og fremst að hagræðingu

Finnur sagðist ekki hafa fyrirfram mótaða skoðun á því hvaða bankar ættu að sameinast ef slíkt kæmi til. Sagðist hann vilja að hagkvæmustu kostanna yrði leitað og fagnaði hann þingsályktunartillögu Frjálslynda flokksins um að farið yrði út í að kanna sérstaklega hvaða leiðir væru hagkvæmar í þeim efnum. Sú vinna væri þó reyndar þegar í gangi í viðskiptaráðuneytinu.

Um það hvort líta ætti svo á að þrátt fyrir 15% sölu nú stæði enn heimild ráðherra til að auka hlutafé bankanna að 35% sagði Finnur að fram kæmi í áliti meirihluta efnahags- og viðskiptanefndar að þar væri átt við 35% af heildarfjárhæð hlutafjár á hverjum tíma. "Ég tek undir þessa niðurstöðu efnahags- og viðskiptanefndar og tel þar af leiðandi ekki ástæðu til þess að setja frekari skorður um þá heimildir til aukninga," sagði Finnur. Menn væru því komnir í tvisvar sinnum 15% af þessari 35% heimild.

Hvað varðaði framtíðarstefnu í málefnum ríkisbankanna sagði Finnur að það væri afstaða hans að ekkert lægi á að selja meira af hlutafé ríkisins að þessari sölu lokinni. "Og það eru þrjú ár rúmlega eftir af kjörtímabilinu og áformin í stjórnarsáttmálanum ganga út á það að selja á kjörtímabilinu."

Upplýsti Finnur að unnið væri að skoðun í viðskiptaráðuneytinu á því hvort hægt væri að setja reglur um dreifða eignaraðild. Sagði hann enga ástæðu til að menn velktust í vafa um vilja ríkisstjórnarinnar í þeim efnum. "Og það er ekki spurning um það hversu mikla trú menn hafa á því að það sé hægt heldur vilja menn fyrst og fremst með slíkum reglum tryggja að ekki verði farið í kringum þær."

Sameining þyrfti að koma til kasta Alþingis

Loks kvaðst Finnur Ingólfsson viðskiptaráðherra þeirrar skoðunar að hugsanleg sameining banka þyrfti að koma til kasta Alþingis nema kannski ef um Búnaðarbanka og Landsbanka væri að ræða enda væri þar sami eigandi á ferð.

"Hins vegar tel ég að ríkið væri að nokkru leyti að ráðstafa eignarhlut sínum með því að fara í samvinnu við einkaaðila og þar af leiðandi tel ég að það þyrfti að koma til kasta Alþingis," sagði Finnur. "Í báðum tilfellum held ég þó hins vegar að það væri eðlilegt og væri skynsamlegt að taka það mál hér upp til umræðu á Alþingi og fá niðurstöðu Alþingis í þeim efnum."