[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
ANNARRI umræðu um frumvarp til laga um sölu á 15% af eignarhluta ríkisins í Búnaðarbanka og Landsbanka lauk á Alþingi í gærkvöldi.

ANNARRI umræðu um frumvarp til laga um sölu á 15% af eignarhluta ríkisins í Búnaðarbanka og Landsbanka lauk á Alþingi í gærkvöldi. Viðskiptaráðherra hefur samþykkt tillögur framkvæmdanefndar um einkavæðingu um fyrirkomulag við sölu á 15% hlut ríkisins í Landsbanka og Búnaðarbanka.

Framkvæmd útboðsins verður með þeim hætti að almenningi verður boðið að kaupa allt að 10% hlutafjár ríkisins með áskrift en að auki verður óskað eftir tilboðum í 5%.

Við sölu á hlutabréfum Landsbankans getur hver áskrifandi skráð sig fyrir 270.000 kr. að nafnvirði á genginu 3,8. Í Búnaðarbanka Íslands hf. getur hver áskrifandi skráð sig fyrir 250.000 kr. að nafnvirði á genginu 4,1.

Í tilboðssölu verður gengi við almennt útboð notað sem lágmarksviðmiðun. Í Landsbanka Íslands hf. er lágmarksfjárhæð í tilboðssölu 270.000 kr. að nafnverði og hámark til hvers kaupanda 55 milljónir að nafnverði. Í Búnaðarbanka Íslands hf. verður lágmarksfjárhæð í tilboðssölu 250.000 kr. að nafnverði og hámark til hvers kaupanda 35 milljónir króna.

Annarri umræðu um lagafrumvarp ríkisstjórnarinnar, sem heimilar sölu á hlutabréfunum lauk á Alþingi um klukkan 22.45 í gærkvöldi eftir að hafa staðið linnulítið frá því um morguninn.

Var frumvarpið afgreitt í atkvæðagreiðslu til 3. og síðustu umræðu og fer hún fram í dag. Er gert ráð fyrir að hún taki rúmlega klukkustund en síðan hefjist 2. umræða um fjárlög.

Finnur Ingólfsson viðskiptaráðherra, sagði í samtali við Morgunblaðið í gærkvöldi, að mjög mikilvægt væri að afgreiða frumvarpið sem lög frá Alþingi fyrir helgi svo hægt verði að ná því markmiði, sem sett er í frumvarpinu, að hefja sölu á hlutafénu fyrir jól. Sagði hann jafnframt mikilvægt að afgreiða málið fljótt og vel til að eyða þeirri óvissu, sem hugsanlega gæti skapast á hlutabréfamarkaði meðan ekki hefði fengist niðurstaða í þessu máli, "því það er ekki mjög gott fyrir þessi fyrirtæki, sem þjóðin á, að þau séu hér miðpunktur hávaðaumræðu og átaka. Þess vegna þarf að afgreiða faglega en tiltölulega mjög hratt svona mál í gegnum þingið," sagði Finnur Ingólfsson viðskiptaráðherra.