Leikstjórn: Paul Greengrass. Handrit: Richard Hawkins. Aðalhlutverk: Kenneth Branagh og Helena Bonham Carter. BBC 1999.

RICHARD er misheppnaður listamaður í andlegu ójafnvægi sem flýgur fram af hárri byggingu á heimagerðri flugvél í örvæntingu yfir að hafa aldrei gert neitt af viti í lífinu. Sem refsingu þarf hann að vinna almenningsvinnu og gerist fylgdarmaður Jane, ungrar fatlaðrar konu með sjaldgæfan taugasjúkdóm. Jane á stutt eftir og er staðráðin í því að njóta lífsins og missa meydóminn áður en hún deyr.

Jane segir í myndinni að kynlíf sé alls staðar í umhverfinu; í kvikmyndum, sjónvarpi, dagblöðum, auglýsingum og virðist vera aðaldrifkrafturinn í samfélaginu, en það er ekki fyrir alla. Ekki fyrir þá sem hafa ekki rétt útlit, hvað þá fyrir fatlaða. Þegar þau Richard verða góðir vinir neyðist hann til að hjálpa henni að breyta því.

Skötuhjúin Helena Bonham Carter og Kenneth Branagh eru sallafín í aðalhlutverkum þessarar myndar og mynda skemmtilega furðulegt en heillandi par. Hin smáfríða og allt um fallega Helena vílar það ekki fyrir sér að vera ljót og Kenneth tekst vel að vera lúðalegur. Aldrei að vita nema Helena verði tilnefnd til Óskarsins eins og oft er með leikara í hlutverki fatlaðra.

Af efninu að dæma mætti halda að þetta væri frekar væmin mynd, en svo er ekki. Þar sem Jane hefur húmor fyrir því hvernig komið er fyrir henni og reynir jafnvel að notfæra sér það er íronían aldrei langt undan. Þótt það megi hlæja að þessari mynd sem byggð er á sannri sögu, lífsreynslu handritshöfundarins, er hún ósköp raunaleg undir niðri. Mér finnst þetta frábær saga; bæði skemmtileg og áhugaverð með góðan boðskap. Handritið er samt ekki alveg nógu hnitmiðað. Því má eiginlega líkja við persónur myndarinnar; ekki í fullkomnu jafnvægi en tekst þó á flug.

Hildur Loftsdóttir